145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[14:55]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég hef stundum haldið því fram þegar rætt er um siðareglur að þær ættu að vera óþarfar vegna þess að siðareglur ættu að vera í höfðinu á fólki en ekki skrifaðar niður á blað. Þess vegna verð ég að segja að mér finnst einkennilegt þegar hv. þingmaður Framsóknarflokksins segir að ekki þurfi að fara eftir 8. gr. siðareglnanna vegna þess að reglurnar taki ekki gildi fyrr en í haust. Það er alveg undarlegt. Í sömu andrá kallar hann þingmenn lágkúrulega. Ég verð, virðulegi forseti, að gera alvarlega athugasemd við fundarstjórn forseta, um það að einum þingmanni líðist að koma hingað og kalla okkur hin lágkúruleg án þess að fólk sé að minnsta kosti beðið um að gæta orða sinna. Það hefur verið gert af minna tilefni í þessum sal.