145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[15:35]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá kröfu sem hér hefur komið fram að forsætisráðherra, 1. flutningsmaður þessa frumvarps, sitji hér undir umræðum og taki helst þátt í þeim. Ef ég hef skilið forseta rétt á hæstv. forsætisráðherra samkvæmt einhverjum mælitækjum að vera í húsinu og ætti að vera tiltölulega létt verk fyrir hann að koma hingað og sitja í þingsalnum, þótt ekki nema væri til að hlusta á umræðurnar, taka þátt í þeim og svara þeim spurningum sem hér verða bornar upp.

Ef hæstv. forsætisráðherra neitar að koma til umræðu um mál sem snerta hann persónulega, hans persónulegu hagsmuni, og ganga þvert á allar þær siðareglur og siðferðisviðmið sem við sjálf gerum til okkar í þessum þingsal og sem þjóðin gerir til þingmanna sinna spyr ég hæstv. forseta: Er það forsætisráðherrann sem neitar að koma hingað til umræðu um málið eða hefur hann ekki verið boðaður til þess? Er það forseti sem boðar ekki hæstv. forsætisráðherra til þessarar umræðu eða neitar hann að koma hingað? Það er lágmarkskrafa, virðulegi forseti, hún er ekki ósanngjörn (Forseti hringir.) frekar en aðrar kröfur sem hafa verið gerðar til forsætisráðherra hér í vikunni, að hann komi í þingsal og sitji undir umræðunum.