145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[17:56]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að þær breytingar sem hér er verið að boða sýni það að að sjálfsögðu hafi ýmislegt mátt gera betur í málaflokki minjaverndar. Ég veit ekki betur en að til að mynda hafi talsvert af starfsreglum Minjastofnunar verið unnið út frá þeim athugasemdum sem bárust eftir að lögin voru sett 2013. Það sem vantar algjörlega í greinargerðina sem við ræddum er til dæmis mat á því hvort þessar breytingar muni skila einhverju og þær séu það sem þarf til að bregðast við þeim athugasemdum sem væntanlega hafa borist frá hagsmunaaðilum, ef marka má greinargerðina, við framkvæmd Minjastofnunar á lögbundnu hlutverki hennar eða hvort þegar hafi verið brugðist við þeim, t.d. með breyttum starfsreglum eða öðru slíku. Það er eitthvað sem hv. þingnefnd þarf að leggja verulega vinnu í að skoða af því ekki er gerð grein fyrir því í greinargerðinni. Við erum ekki með greiningu á því af hverju nákvæmlega breytinga er þörf á lögum til að ná fram þeim úrbótum sem hér er rætt um. Það sem ég dreg út úr þessu er í fyrsta lagi sú mantra af hálfu ríkisstjórnarinnar að það eigi að fækka stofnunum og það er svo sem ekki einungis af hálfu þessarar ríkisstjórnar, það er ákveðin nauðhyggja að mikilvægt sé að fækka stofnunum án þess endilega að þær eigi vel saman. Það vil ég segja. Það er vissulega boðaður fjárhagslegur ávinningur og það þriðja er að færa ráðherra vald til að móta ákvarðanir um húsafriðun. Það er því ekki ráðherra lengur að staðfesta húsafriðun eins og verið hefur, heldur er það ráðherra og ráðuneytið sem móta þær tillögur. Ég sé ekki að það þurfi neitt slíkt frumvarp til að mæta því sem rætt er um fyrirkomulag leyfisveitinga og annað á sviði fornleifarannsókna. (Forseti hringir.) Ég tel að hér sé verulegrar vinnu þörf við að greina það í kjölinn.