145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[18:45]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég tek undir síðustu orð hv. þingmanns, maður vonast til þess að kallað verði eftir áliti hagsmunaaðila og hlustað á þá. En það hefur þegar verið vitnað í álit allra þeirra sem hafa sagt eitthvað um þetta frumvarp, haft eitthvað um það að segja. Þeir leggjast allir gegn því. Allir. Það er enginn sem mælir með því. Á fundinum sem ég vitnaði til, sem var haldinn af hálfu Capacent, kom fram að beinlínis allir aðilar legðust gegn frumvarpinu. Allir þeir sem sátu fundinn, og þetta voru engir aukvisar, lögðust gegn frumvarpinu.

Þá spyr maður: Til hvers er svona frumvarp komið fram? Hverjar eru forsendurnar fyrir því? Það er bara eitt eftir í því og það er persónulegur áhugi viðkomandi ráðherra á að ráða yfir þessum málaflokki hvað sem tautar og raular, hvað sem faglegum rökum og umsögnum líður. Ég óttast þess vegna að fari þetta mál (Forseti hringir.) til umræðu í nefndum fái álit umsagnaraðila sömu meðferð og hingað til, það verði ekkert gert með þau. Því miður.