145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[19:25]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég efast ekki um að hægt sé að búa til lagafrumvarp á tímabilinu 27. nóvember eitt árið til 22. febrúar þess næsta. En þetta er ekkert venjulegt lagafrumvarp. Þetta eru breytingar á sex lögum með fjórum bráðabirgðaákvæðum að auki. Þetta eru fljótlega talið kannski sjö vinnuvikur, ef það er enginn frídagur þarna inni. Að því gefnu að þeir sem skipuðu stýrihópinn hafi komið algjörlega blankir að þessu máli — og þetta er sami stýrihópurinn og segir í athugasemdum með lagafrumvarpinu að hafi fengið það hlutverk að endurskipuleggja verkefni Minjastofnunar. Síðan segir í fréttatilkynningunni að stýrihópur á vegum forsætisráðherra um endurskipulagningu á verkefnum Minjastofnunar hafi skilað af sér frumvarpi. Það reyndist svo ósatt. Það var ekki fótur fyrir því. Það var algjörlega rangt.

Í kjölfar þessarar fréttatilkynningar á vef forsætisráðuneytisins neyðist Minjastofnun til þess að senda frá sér tilkynningu og hafna þeirri fullyrðingu forsætisráðherra að frumvarpið sé á vegum Minjastofnunar eða þessa starfshóps. Verið er að keyra í gegn með þessum hraða frumvarp af þessu tagi sem síðan er tilkynnt um að sé unnið í samráði við þann sem segir að það sé rangt, það hafi ekki verið neitt samráð. Reyndar var það þannig að Minjastofnun þurfti að senda tölvupóst upp í forsætisráðuneyti og biðja þá að senda sér frumvarpið af því að þeir hefðu ekki séð það, sem þau voru þá kennd við. Hvað telur hv. þingmaður að búi að baki slíkri frumvarpsgerð? (Forseti hringir.) Hvert er markmið þess sem leggur fram slíkt frumvarp? (Forseti hringir.) Er hann að leggja fram faglegt frumvarp (Forseti hringir.) í einhverju samráði? Ætla menn sér að keyra (Forseti hringir.) það í gegn með góðu eða illu, (Forseti hringir.) með sönnu eða ósönnu.