145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér þætti gaman að sjá hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans koma hingað upp og reyna að verja það sem fram hefur komið, reyna að verja það að á Íslandi og frammi fyrir heiminum öllum ætlum við að láta þetta viðgangast, að Alþingi ætli að sitja hér áfram eins og ekkert sé, að ríkisstjórnin ætli að sitja áfram eins og ekkert sé. Og hæstv. forsætisráðherra segir bara: Nananananana. Komið með vantraust. Það er ekkert mál, við getum þá rætt ríkisstjórnina. Ætla þingmenn stjórnarmeirihlutans að koma hingað upp og verja þessa hegðun og verja þetta ástand? Hvað ætla hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans að segja við erlenda ráðamenn sem koma hingað og hvá? Ætlum við að láta þetta viðgangast? Í alvörunni talað? Í alvöru alvörunni?

Virðulegi forseti. Þessi staða gengur ekki. Eftir það hvernig hæstv. forsætisráðherra hefur hagað sér í fjölmiðlum í dag er maður jafnvel hneykslaðri en maður hélt að maður gæti orðið. Þetta er algerlega óviðunandi. Þetta gengur ekki. (Forseti hringir.) Það að hæstv. forsætisráðherra geti ekki komið hingað (Forseti hringir.) og svarað skýrslubeiðni um þetta er algerlega til skammar eins og reyndar flest annað í þessu máli.