145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:26]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Dansinn kringum gullkálfinn hefur oft orðið mörgum að falli.

Nú virðist hæstv. forsætisráðherra ætla að dansa sinn Tortóludans og ekki hafa skynsemi til þess að stíga til hliðar þrátt fyrir allar þær upplýsingar sem liggja fyrir og hann hefur leynt fyrir þjóð og þingi frá því að hann tók hér við völdum.

Menn væru meiri menn ef þeir skildu að nú væri nóg komið. Að nú ættu menn að rísa upp fyrir eigin frama og eigin valdagræðgi og stíga til hliðar til þess að reyna að bjarga því sem bjargað verður og sýna þjóðinni þá virðingu, því að ekki er hægt að líða að æðsti valdamaður þjóðarinnar haldi að hann geti setið slíka hneisu af sér eins og hann virðist ætla að gera.

Ég trúi ekki öðru en að heiðarlegir þingmenn í stjórnarliðinu sjái að þetta getur ekki gengið. Við erum að vinna okkur út úr erfiðu hruni (Forseti hringir.) þar sem verið er að reyna að ná aftur trausti milli manna í þessu landi. Það verður ekki gert með forsætisráðherra við völd.