145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

dagskrá fundarins.

[15:44]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það virðist vera sem forsætisráðherra ætli að sitja sem fastast. En ég velti fyrir mér: Hvað með þingmenn stjórnarflokkanna? Í þeim hópi er grandvart og heiðarlegt fólk eins og við vitum, fólk sem vill landi og þjóð vel. Og þó að við séum ekki sammála um leiðir alltaf hreint og ekki alltaf sammála í pólitík þá dregur enginn í efa vilja flestra stjórnarliða til að vinna landi og þjóð sem mest gagn.

Ætla þessir þingmenn að sjá til þess að forsætisráðherra sitji sem fastast? Ætla þeir að leggja blessun sína yfir ósannindi, blekkingar, siðferðisbrest og þann fullkomna trúnaðarbrest sem orðinn er milli þings og þjóðar í framhaldi af þessu ófremdarmáli?

Ef þingmönnum er annt um þjóðarhag þá hljóta þeir að knýja forsætisráðherra til afsagnar og láta ekki niðurlægja landið og orðspor þess (Forseti hringir.) til þess að verja valdasókn eins manns.