145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

eignir forsætisráðherra í skattaskjóli.

[16:17]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ísland er í hópi þeirra ríkja sem nú er verið að ræða um að þurfi sérstaklega að skoða málefni skattaskjóla og hvort menn hafi nýtt skattaskjól, vegna þess að hér á landi var óeðlilega stórt banka- og fjármálakerfi á árunum fyrir hrun sem að miklu leyti lagði upp fyrir viðskiptavini sína slíkt fyrirkomulag. Það er þess vegna sem verið er að ræða þessi mál er varðar Ísland. Og hvers vegna erum við og menn annars staðar víða um heim að ræða þessi mál? Er það ekki einmitt, virðulegur forseti, af því að þetta snýst um spurninguna um skatta, snýst um spurninguna hvort menn standi skil á sínu, hvort þeir leggi sitt til samfélagsins og helst síns eigin samfélags? Um það snýst þessi umræða.