145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[16:44]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Eftir umræðuna sem við áttum í óundirbúnum fyrirspurnum við hæstv. forsætisráðherra verð ég að ítreka hve vonsvikinn ég er með að hann hafi ekki flutt skýrslu um sín mál vegna þess að það eru fleiri spurningar eftir en svör.

Við höfum verið að setja siðareglur fyrir alþingismenn. Það hafa verið settar siðareglur fyrir ráðherra. Það gilda stjórnsýslulög, þar á meðal 2. gr. stjórnsýslulaga á Íslandi. Það sem virðist vera ljóst er að forsætisráðherra hefur sagt frá því að hann hafi vísvitandi ákveðið að halda upplýsingum frá til þess að það mundi ekki trufla störf sín. Ég velti því fyrir mér hvort þær reglur, og utanumhald með þeim reglum, eftirlit með þeim reglum sem við höfum hér á hinu háa Alþingi sem hefur eftirlit með (Forseti hringir.) framkvæmdarvaldinu, séu nógu sterkar og hvað í ósköpunum við getum gert til þess að styrkja þær og bregðast við þessu fordæmalausa ástandi.