145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[16:47]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er nú ljóst eftir að hafa hlustað á hæstv. forsætisráðherra svara ekki fyrirspurnum frá þingmönnum sem báru þær upp áðan á annan hátt en með skætingi og útúrdúrum eins og hans er von og vísa að hann ætlar að sitja áfram. Þessi forsætisráðherra Íslands sem við núna búum við — við þurfum að búa við afleiðingar þess að hann situr enn og hver einasta mínúta sem þessi forsætisráðherra situr hér verður okkur dýrkeypt. (Gripið fram í.) Það er ljóst. Maður horfir hérna út yfir Austurvöll og þar sér maður skilti. Og hvað stendur á skiltunum? Það stendur á skiltunum að fólk vill Sigmund Davíð Gunnlaugsson burt. Þessi ráðherra ætlar sér ekki að víkja. Því hefur minni hlutinn lagt fram vantraust á þennan ráðherra og alla hans ríkisstjórn. Ég vona að sú tillaga (Forseti hringir.) verði rædd sem fyrst því að ég vil heyra í þingmönnum stjórnarliða, (Forseti hringir.) ég vil heyra þingmenn stjórnarliða verja þennan mann sem ég mun aldrei aftur kalla hæstvirtan.