145. löggjafarþing — 92. fundur,  4. apr. 2016.

skýringar forsætisráðherra á aflandsfélagi.

[16:49]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Hvað er í húfi hérna? Hvað erum við að horfa á?

Mér finnst nokkuð kristaltært eftir þennan fyrirspurnatíma, eftir þennan dag, að við erum að horfa á siðrof. Hvað er siðrof? Það er ástand þar sem upplausn ríkir, allt má. Lög og reglur merkja ekkert, hafa enga þýðingu. Stjórnsýslulög merkja ekkert. Þó að þau segi að maður megi ekki koma að úrlausn stjórnsýsluákvarðana ef maður á hagsmuna að gæta og verði alltaf að láta vita af hagsmunum sínum, þá merkja þau ekkert. Ef þau hafa enga þýðingu fyrir hæstv. forsætisráðherra, þá merkja þau ekkert. Hann var kröfuhafi á sama tíma og verið var að semja við kröfuhafa. Þá merkir þetta ekkert. Siðareglurnar okkar sem við vorum að setja hérna merkja ekkert. Þær segja að við eigum að greina frá öllum hagsmunum okkar venslafólks. Siðareglur ríkisstjórnarinnar merkja ekkert.

Þessu erum við að berjast fyrir hérna. Að lög (Forseti hringir.) merki eitthvað, að reglur merki eitthvað. Eftir þennan dag — og meira að segja reynir hæstv. forsætisráðherra að halda því fram að skattaskjól merki ekki neitt heldur — erum við hérna í allsherjarbaráttu (Forseti hringir.) fyrir því að hafa einhverja merkingu, (Forseti hringir.) einhverja siði, einhverjar reglur í samfélaginu.