145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

eignir ráðherra í skattaskjólum.

[11:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég kannast ekki við að hafa gerst frægur fyrir að reyna að ata aðra auri. En það er akkúrat það sem hv. þingmaður er að gera. Hann er að persónugera þennan vanda. Hann er að lýsa því yfir að sá sem hér stendur þurfi að svara honum með þeim hætti að draga mín persónulegu mál upp á borðið. Ég held að það sé ekki góð leið til að komast í gegnum þessa umræðu. (BirgJ: Ertu ekki ráðherra skattamála?) (OH: Ertu ekki fjármálaráðherra?) Ef ég gæti beðið (Forseti hringir.) þingmenn um að halda aftur af sér þá einu mínútu sem ég hef til andsvara væri það ágætt.

Það er ekki bæði hægt að segja að ekkert hafi gerst og að það þurfi eitthvað að gerast. Í þessari viku hefur gríðarlega mikið gerst. Forsætisráðherra hefur stigið til hliðar. Meiri hlutinn á þinginu hefur verið styrktur. Það er 38 þingmanna meiri hluti fyrir áframhaldandi stjórnarsamstarfi og sú umræða sem hv. þingmenn eru að reyna að setja af stað (Forseti hringir.) er í raun og veru þingrofsumræðan sem á að fara fram á morgun. Þessi ríkisstjórn hræðist ekki þá umræðu. (Forseti hringir.) Við skulum taka hana og afgreiða hana með atkvæðagreiðslu á morgun.