145. löggjafarþing — 93. fundur,  7. apr. 2016.

notkun skattaskjóla.

[12:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Áfram heldur hv. þingmaður að segja gildishlaðna hluti og ætla fólki hið illa. Ég get ekki gert það. Það eina sem ég get sagt er þetta: Fari menn að lögum, greiði hér skatta, þá get ég ekki sagt að ásetningur þeirra hafi verið illur. Hins vegar, í þeim tilvikum sem menn hafa ekki gert það, þurfa menn að gera hreint fyrir sínum dyrum. Hér hefur því verið haldið fram að menn hafi verið að sækjast eftir þessu, og þá er aftur settur upp sá ásetningur að það hafi verið tilgangurinn. Í ljósi þess gríðarlega fjölda sem hér er um að ræða, eins og komið hefur fram í þessum ágætu Panama-skjölum, er það langt umfram það að einhverjir einstaklingar hafi verið að sækjast eftir einhverju. Þá var þetta miklu frekar einhver regla sem var í fjármálakerfinu.

Það er auðvitað dapurlegt að fjármálakerfið hafi á þessum tíma verið með þessum hætti. Ég vona að fjármálakerfið sé ekki lengur þannig. Ef regluverkið frá okkur á Alþingi leyfir slíka hugsun (Forseti hringir.) í fjármálakerfinu þurfum við að taka á því. En ég treysti mér vel til að halda áfram þessu ríkisstjórnarsamstarfi við traustan meiri hluta og það er byggt á þeim gríðarlega góðu verkum sem við höfum unnið síðastliðin þrjú ár og til að ljúka þeim stóru verkefnum sem eru fram undan.