145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[13:24]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Stjórnarandstaðan leggur í dag fram tillögu um að Alþingi lýsi vantrausti á ríkisstjórnina og Alþingi samþykki að rjúfa þing og boða til kosninga. Stjórnarandstaðan stendur sameinuð á bak við tillöguna og miðað við þau orð sem margir hv. þingmenn stjórnarflokkanna hafa látið falla undanfarna daga er ljóst að margir þeirra styðja í hjarta sínu að strax verði boðað til kosninga. Þeir sjá eins og við sjáum öll að nýja ríkisstjórnin er gamalt vín, ekki einu sinni á nýjum belgjum heldur eru belgirnir þeir sömu og áður. Tilefni tillögunnar er augljóst. Sú vika sem brátt er á enda hefur verið dramatísk, fáránleg á köflum, en þar hafa viðbrögð stjórnarflokkanna við stærsta gagnaleka sögunnar verið miðpunkturinn. Sá leki sýnir að Íslendingar eiga einhvers konar heimsmet þegar kemur að eignum í aflandsfélögum í skattaskjólum. Sá leki sýnir líka, þegar skoðað er hve margir ráðherrar eru í ríkjum Vestur-Evrópu, þeir eru um það bil 332, að nöfn fjögurra þeirra koma við sögu í Panama-skjölunum og þrír af þessum fjórum voru ráðherrar í ríkisstjórn Íslands og tveir þeirra sitja enn sem ráðherrar.

Eins og við öll vitum getur verið margháttaður tilgangur með því að stofna aflandsfélög í skattaskjólum. Þar má nefna ýmislegt, t.d. að komast hjá skattgreiðslum. Annar tilgangur er sá að það hvíli leynd yfir viðkomandi félagi, ekki eru gefnar upplýsingar um það og skráning er mjög ófullkomin. Þess vegna eru settir leppar í stjórnina. Þegar við fengum að kynnast stjórnarmönnum Íslands, leppunum sem sitja í íslensku aflandsfélögunum, sitja þeir þar til þess að fela raunverulega eigendur. Það eru engar kröfur gerðar um að félögin skili ársreikningum eða leggi fram aðrar upplýsingar um starfsemi sína, enda hefur verið sagt að þeir sem geymi eignir sínar í aflandsfélögum séu í raun í þeirri stöðu að velja sér eigin skattprósentu ólíkt almenningi, því yfirvöld heimalandsins, skattaskjólsins, hafa lítil sem engin tæki til að sannreyna skattgreiðslur af eignum í skattaskjólum. Yfirvöld hafa lítið eftirlit með þessum félögum.

Ég held að ekki sé orðum aukið að segja að hér á landi hafi gripið um sig einhvers konar aflandsfélagaæði á árunum fyrir hrun. Þau virðast hafa orðið álíka algeng og fótanuddtæki á níunda áratugnum sem er kannski ekki skrýtið í ljósi þeirrar stjórnarstefnu sem ríkti fyrir hrun þar sem ætlunin var að koma Íslandi út á leikvöll alþjóðlegrar fjármálastarfsemi eða erum við búin að gleyma nefndinni sem var stofnuð 2005 undir formennsku Sigurðar Einarssonar, þáverandi stjórnarformanns Kaupþings, nefnd forsætisráðuneytisins um að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð? Stefnan var líka að lækka skatta fyrir útvalda hópa, ýta þannig undir ójöfnuð, enda jókst hann mjög á árunum fyrir hrun. Þetta var stjórnarstefnan. Í því andrúmslofti var bara eðlilegt að stofna aflandsfélög undir sína starfsemi.

Það var ekki fyrr en 2009 að svokallaðar CFC-reglur voru færðar í lög sem þrengja mjög að möguleikum eigenda aflandsfélaga til að fara fram hjá eðlilegri skattheimtu. Þá var farið að telja allar tekjur félagsins sem tekjur eigandans sem skuldbindur hann þar með til að telja tekjur sínar fram á eigin skattframtali. Á síðasta kjörtímabili var líka lyft grettistaki í gerð svokallaðra upplýsingaskiptasamninga til að tryggja aukið upplýsingaflæði milli ríkja um flæði fjármagnsins sem er í takt við alþjóðlega stefnumótun, m.a. á vegum OECD og Norrænu ráðherranefndarinnar.

En þessi stærsti gagnaleki sögunnar, Panama-skjölin, hefur afhjúpað stöðuna hér á landi í raun og veru og íslenskur almenningur mátti horfa upp á það að fyrrverandi forsætisráðherra var eini vestræni þjóðarleiðtoginn í þeim hópi stjórnmálaleiðtoga sem er með tengsl við aflandsfélög. Og ráðherrann reyndi að leyna þeim upplýsingum fram á síðasta dag.

Því miður er það svo, herra forseti, að í hópi hv. þingmanna og hæstv. ráðherra stjórnarflokkanna virðast flestir hafa sameinast um að þetta sé nú dálítið óheppilegt. Ég hef ekki heyrt marga fordæma það að ráðamenn telji eðlilegt að geyma eignir í skattaskjólum. Hins vegar hef ég heyrt hæstv. forsætisráðherra tala um að í raun og veru sé ekkert óeðlilegt við það. Fyrstu viðbrögð í herbúðum stjórnarflokkanna voru í raun þau að afhjúpunin væri fjölmiðlum að kenna. Það var ekkert reynt að takast á við þá staðreynd að ráðamenn þjóðarinnar væru í fámennum hópi ríkra Íslendinga sem vildi spila eftir öðrum reglum en væri boðið upp á fyrir venjulegan Íslending með því að geyma eignir sínar í aflandsfélögum. Ekki var reynt að svara þeirri spurningu hvort það væri siðferðilega verjandi eða eðlilegt að eiga slík félög. Hins vegar birtu þingmenn, til að mynda tveir hv. þingmenn Framsóknarflokksins, nánast orðrétt sömu grein þar sem Ríkisútvarpið var sakað um að vera í pólitískri herferð gegn forsætisráðherra. Ég hef ekki heyrt í þessum hv. þingmönnum síðan. Telja þeir kannski að BBC, DR, NRK, SVT, Le Monde, Süddeutsche Zeitung, The Guardian, Independent, og svo mætti lengi telja þá erlendu fjölmiðla sem hafa fjallað um málið, séu líka þátttakendur í þessari herferð eða bara leiksoppar Ríkisútvarpsins? (Gripið fram í.)

Það er nefnilega þannig, herra forseti, að viðbrögð stjórnarflokkanna eru ekki síður alvarleg en málið sjálft. Þau eru önnur lykilforsendan fyrir vantrausti. Þau sýna að ríkisstjórn Íslands telur allt í lagi fyrir kjörna fulltrúa og æðstu embættismenn að eiga eignir í aflandsfélögum í skattaskjólum og greina ekki frá þeim. Þetta var staðfest í óundirbúnum fyrirspurnatíma í gær. Það er bara óheppilegt ef kemst upp um strákinn Tuma og það er fjölmiðlunum að kenna. Það er ekki mikil reisn yfir þeim viðbrögðum, herra forseti, þó að einstaka þingmenn gangi núna fram og telji að þetta dugi ekki til. En ég fagna þeim sem eru reiðubúnir að standa upp og segja hvað þeim býr í brjósti, því að ég trúi því ekki að hv. þingmenn í þessum sal finnist öllum þetta bara allt í lagi. Ég trúi því ekki. Ég held að það fari ekkert eftir flokkslínum, herra forseti.

Í hruninu hrundi traust almennings á stjórnmálum. Það traust hefur ekki byggst upp aftur. Atburðir síðustu daga eru ekki til þess fallnir að auka það. Það er mjög alvarlegt fyrir lýðræði í landinu og það er alvarlegt fyrir stofnanir samfélagsins sem verða að standa traustum fótum til þess að samfélagið gangi sem skyldi.

Ríkisstjórnin er stórlega löskuð. Hún sýnir með orðum sínum að hún gerir sér ekki grein fyrir alvarleika málsins. Hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar tönnlast á því að þeir þurfi að fá rými til að ljúka verkum. Ég hef enn ekki heyrt hvernig þeir ætla að takast á við þessi tíðindi, hvort það eigi að stórefla embætti skattrannsóknarstjóra, hvort það eigi að samþykkja rannsókn á þessum brotum, hvort Alþingi eigi ekki að taka þessi mál til sérstakar umfjöllunar. Ég hef ekki heyrt það. Hér er bara talað um að ljúka þurfi verkum ríkisstjórnarinnar. Núverandi ríkisstjórn hefur með viðbrögðum sínum sýnt að henni er ekki treystandi til að takast á við þessi alvarlegu mál. Tilraunir hennar til að sitja áfram munu draga enn meira úr trausti á stofnanir samfélagsins sem mega engan veginn við því, þær munu draga enn úr trausti á stjórnmálunum sem mega ekki við því og þær munu draga úr trausti á lýðræðinu.

Við sem sitjum hér berum ábyrgð á stöðu lýðræðisins í landinu. Við verðum að gera eitthvað sem gefur fólkinu í landinu ástæðu til að treysta okkur fyrir því verkefni. Það er margfalt mikilvægara verkefni en líf ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar, hæstv. forsætisráðherra. Þessi ríkisstjórn hefur ekki burði til að byggja upp traust á lýðræðinu í landinu. Það verkefni er mikilvægasta verkefni okkar allra sem hér sitjum. Það má tala um húsnæðismál og afnám hafta. Allt eru það mikilvæg verkefni en þau skipta litlu ef traustið er algjörlega horfið úr samfélaginu, bæði á þessari stofnun sem og öðrum stofnunum samfélagsins. Það er stóra málið. Þess vegna leggjum við fram tillögu um að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina og leggjum til að við setjum völdin í hendur íslensks almennings sem þarf að fá tækifæri til að lýsa sinni skoðun og endurnýja umboðið til þeirra sem vilja taka þátt í stjórnmálum og sitja hér á Alþingi. Þingrof og kosningar núna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)