145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[17:06]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta eru um margt merkilegar umræður í upphafi ríkisstjórnar. Það má segja að hér hafi verið talað með tvennum hætti. Annars vegar hafa þingmenn stjórnarandstöðunnar og margir stjórnarþingmenn talað um að við getum sannarlega unnið saman og getum sannarlega lokið mikilvægum verkefnum og menn hafa skilning á því að það sé mjög mikilvægt að ljúka verkefnum sem skipta þjóðina miklu máli og mun meira máli en að fara út í óvissa stöðu, fara að kjósa innan 45 daga. Síðan eru aðrir sem hafa gengið býsna langt og haldið því fram að ekki sé neitt annað hægt að gera en að kjósa. Þeirra rök eru léttvæg miðað við hin rökin sem hafa verið lögð fram. Því vil ég hvetja alla þingmenn í salnum til að hlusta á þær raddir sem bæði hafa komið úr röðum minni hluta og meiri hluta um að við getum sannarlega unnið saman að góðum málum (Forseti hringir.) sem varða þjóðarhag, og þá fellum við báðar þær tillögur sem hér hafa verið bornar fram.