145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[17:08]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í umræðunum í dag höfum við heyrt þingmenn stjórnarflokkanna ítreka þörfina á því að það séu þeir sem geti leitt mál til lykta og þeir sem geti unnið fyrir þjóðarhag. Það hefur ekki einn einasti þingmaður stjórnarliðsins beðist afsökunar á því að kjörnir fulltrúar skuli hafa verið á lista yfir fólk sem á eignir í aflandsfélögum. Við höfum ekki upplifað neina auðmýkt eða heyrt neina afsökunarbeiðni á þessu ástandi, þeirri kreppu sem við erum í. Það er í sjálfu sér sorglegt og erfitt og við vitum það öll, við erum öll meðvituð um það, bæði stjórnarandstæðingar og stjórnarliðar. En það sem hefur ekki gerst í dag, því miður, er að menn hafi fundið leiðir til þess að ná saman, byggja upp. Þess vegna er ekkert annað í boði en að styðja báðar tillögur, að stjórnin fari frá (Forseti hringir.) og að gengið verði til kosninga strax.