145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[17:26]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði áðan að vegna mikillar óvissu yrði þessi ríkisstjórn að starfa áfram. Út af hverju er óvissa? Það er út af þessari blessaðri ríkisstjórn sem skilur ekki vitjunartíma sinn. Það er óvissa vegna þess að hún er rúin öllu trausti. Þess vegna er óvissa. Þess vegna þarf að koma ríkisstjórninni frá. En þeir flokkar sem stýra landinu og hafa stýrt því allt of lengi halda að þeir séu hinir guðs útvöldu til að stjórna landinu, það sé svo eðlilegt, helmingaskiptastjórnin á milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þar sem spillingin þrífst best. Það er það sem fólkið mótmælir hér úti. Upp hefur komið spilling og enn á eflaust eftir að koma upp meira. Menn eiga að pakka saman. Þessi ríkisstjórn hefur ekki heilbrigðisvottorð frá þjóðinni. Það þýðir ekki að veifa því að 38 þingmenn hér inni (Forseti hringir.) styðji ríkisstjórnina. Þeir 38 þingmenn verða að gera sér grein fyrir því (Forseti hringir.) að þeir eru líka rúnir trausti af því að þeir styðja ríkisstjórnina (Forseti hringir.) sem er svo spillt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)