145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[17:39]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég lagði nafn mitt við þessa tillögu. Ástæða þess er að það er ekki aðeins þjóðin sem að stórum hluta til hefur ekki trú á þessari ríkisstjórn, samanber nýja könnun þar sem einvörðungu um 14% báru mikið traust til ríkisstjórnarinnar og 55% báru mjög lítið traust til hennar. Ég verð að viðurkenna að vonbrigði mín eru mikil gagnvart þeirri meðvirkni sem ég hef séð í dag hjá stjórnarþingmönnum. Ég sá hversu slegnir þeir voru margir í þessari viku. Nú á að gera allt til að tryggja að ráðuneyti skattamálastjóra, sem á fé í skattaskjóli eða átti fé í skattaskjóli, sjái um stærsta fjármálagjörning Íslandssögunnar. (Forseti hringir.) Mikil er ábyrgð ykkar. Það er alveg ljóst (Forseti hringir.) að þessi (Forseti hringir.) mikla ábyrgð mun skila sér í (Forseti hringir.) því hverjir munu eiga sæti á Alþingi þegar boðað hefur verið til kosninga, sem verður vonandi sem fyrst.

(Forseti (EKG): Og þingmaðurinn segir?)

Ég segi já.