145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[17:44]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að orðspor Íslands hefur beðið mikinn hnekki á alþjóðavettvangi. Fonseca-gögnin benda til þess að Íslendingar hafi nýtt sér þjónustu skattaskjóla í miklum ríkari mæli en aðrar þjóðir og hundruð Íslendinga hafa tengst slíkum fyrirtækjum.

Nú hefur fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra stigið til hliðar. Það er mikilvægt skref. Við höfum og við þurfum að ganga lengra. Við þurfum að ganga lengra til að endurheimta orðspor landsins okkar. Við eigum hiklaust að setja lög til að Íslendingar og íslensk fyrirtæki nýti sér ekki starfsemi þessara skattaskjóla. Ég er reiðubúinn til að vinna að því og veit að margir þingmenn hér inni eru tilbúnir til þess. Ég styð þessa ríkisstjórn til góðra verka og bið sérstaklega velkominn nýjan utanríkisráðherra.

Ég segi nei við þessari tillögu.