145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[17:51]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar forustumenn beggja ríkisstjórnarflokkanna hafa orðið uppvísir að því að tengjast félögum í skattaskjólum þá dugar ekki að annar þeirra stígi til hliðar og í staðinn fyrir að sitja á ráðherrabekknum setjist hann út í sal og svo haldi menn áfram eins og ekkert hafi í skorist. Trúnaðarbresturinn er svo ríkur. Hvers vegna er það? Það er vegna þess að þó svo að menn gefi allt sitt upp í félögum sem þeir geyma í svokölluðum skattaskjólum þá er það engu að síður þannig að sönnunarbyrðin liggur hjá þeim sjálfum. Það er engin leið fyrir skattyfirvöld hér að komast að því hvort rétt sé talið fram og þau eru algjörlega upp á náð og miskunn þeirra sem þar geyma félög sín komin varðandi það. Þess vegna er þetta rangt. Þetta er líka rangt, virðulegi forseti, vegna þess að þarna hafa forustumenn í ríkisstjórninni orðið uppvísir að því að kljúfa sig frá þjóðinni. Þetta djúpa vantraust (Forseti hringir.) verður ekki lagað með þessum hætti. Þess vegna (Forseti hringir.) segi ég: Göngum til kosninga nú þegar. (Forseti hringir.) Við skulum öll endurnýja umboð okkar og leggja (Forseti hringir.) öll spilin á borðið. Ég segi já.