145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

lágskattalönd og upplýsingar um skattamál.

[15:05]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er sagt og er hafið yfir allan vafa, tel ég, að mikilvægasta verkefni stjórnmálanna núna sé að byggja upp traust í samfélaginu. Traust veltur meðal annars á því hvernig menn bera sig að við að leiðrétta og bregðast við því sem aflaga hefur farið. Því spyr ég aftur hæstv. forsætisráðherra: Ætlar hann að standa fyrir einhverri vinnu til þess að leiða fram sannleikann í þeim málum sem varða félög formanna Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, þ.e. fé þeirra í skattaskjólum? Hefur forsætisráðherra sett eða hyggst setja af stað einhverja könnun um hvort stjórnsýslulögum hafi verið fylgt vegna aðkomu fyrrverandi forsætisráðherra að málefnum kröfuhafa, nú þegar ljóst er að félag í eigu fyrrverandi forsætisráðherra hafi lýst kröfum í bú föllnu bankanna? Það virðist vera sem fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra hafi haft innherjastöðu (Forseti hringir.) í samningum við kröfuhafa. Hyggst hæstv. forsætisráðherra beita sér fyrir því að stjórnsýslan aðhafist eitthvað í því máli?