145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[16:56]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða hérna frumvarp til laga um sjúkratryggingar, greiðslukerfi í heilbrigðisþjónustu. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir þetta frumvarp sem er stórt skref fyrir afar marga, of marga auðvitað, sem þurfa að nýta sér heilbrigðisþjónustu í landinu. Eins og þeir ræðumenn sem ég heyri hér í fagna ég því að þetta frumvarp sé skref í rétta átt. Þeim finnst það eins og okkur. Þetta er skref í rétta átt til að einfalda greiðslukerfið. Við getum öll verið sammála um það, það er okkar vilji og við munum sýna að við viljum auka fé til heilbrigðiskerfisins eins og við höfum gert á þeim þremur árum sem þessi ríkisstjórn hefur verið við völd. Um það er ekki deilt. Við erum að tala um að þegar við samþykkjum þetta frumvarp muni 30% sjúklinga njóta verðlækkunar á þjónustu en með frumvarpinu er lagt til að tekið verði upp nýtt greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustunnar og ákveðnar mánaðarlegar hámarksgreiðslur sjúkratryggðra. Í frumvarpinu eru jafnframt ákvæði er varða þjónustustýringu heilbrigðiskerfisins sem miða að því að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Þetta er einmitt lykillinn í þessu frumvarpi og afar mikilvægur punktur, að efla heilsugæsluna. Ráðherra hefur sýnt það í verki að hann er að því, hefur boðað það, og það er auðvitað mikið ánægjuefni.

Ég hygg að það eigi við um okkur öll og sé í öllum fjölskyldum sem við þekkjum til að einhver hefur lent í ótímabærum sjúkdómi og þarf á mikilli þjónustu að halda á skömmum tíma. Þá er ekki nóg að heilsan hrynji, heldur hrynur fjárhagslegur grundvöllur fjölskyldunnar oft á sama tíma. Fólk er utan sjúkrahúsa og kostnaður er óheyrilegur. Með þessu frumvarpi er brugðist við því. Ég held að við öll sem hér erum inni hljótum að fagna því og vinna þessu máli brautargengi. Ég held að við séum líka sammála um að í framtíðinni þegar við verðum komin með reynslu af þessu kerfi munum við vilja bæta fé í það.

Kerfið miðar að því að sjúkratryggðir greiði ekki meira en sem nemur ákveðinni hámarksfjárhæð fyrir heilbrigðisþjónustu í hverjum mánuði sem ákvörðuð verður með reglugerð og að jafna greiðslubyrði sjúkratryggðra. Sett verður ákveðið mánaðarlegt greiðsluþak á greiðslur og kostnaður umfram greiðsluþak greiðist af sjúkratryggingum. Gert er ráð fyrir að hámarksgreiðsla verði lægri hjá öldruðum, öryrkjum og börnum. Auk þess geta börn sem leita til sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna með tilvísun frá heilsugæslustöð eða heimilislækni fengið gjaldfrjálsa þjónustu. Þetta er líka gríðarlega mikilvægur punktur sem margir hafa komið hérna inn á, sterkur punktur í þessu frumvarpi. Með þessu er stefnt að því að verja sjúklinga fyrir háum kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Við ákvörðun á greiðsluþátttöku er í frumvarpinu gert ráð fyrir að tekið verði tillit til greiðslna sjúkratryggðra síðustu mánuðina á undan og þannig stefnt að því að jafna greiðslur og koma í veg fyrir háar greiðslur í upphafi árs. Þetta tekur ekki mið af áramótum þannig að næstliðnir mánuðir þar á undan eru teknir til greina þegar sjúklingur mætir. Hann þarf ekki að byrja nýtt ár með því að safna sér inn afslætti eins og við þekkjum við lyfjakostnað og annað slíkt. Hér er líka verið að stíga mikilvægt skref fram á veginn til lækkunar á greiðsluþátttöku þessa fólks.

Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu dreifist á sjúkratryggða með öðrum hætti en í núverandi kerfi þannig að þeir sem þurfa sjaldnar á heilbrigðisþjónustu að halda greiði meira og þeir sem þurfa á mikilli heilbrigðisþjónustu að halda greiði minna. Þetta er einn af lykilpunktunum í frumvarpinu sem hér hefur líka verið ræddur. Ég get alveg tekið undir það með hv. ræðumönnum sem hafa talað á undan mér að það er mikilvægt að þegar við höfum náð tökum á þessu kerfi gerum við okkar besta til að þeir sem við leggjum núna örlítið meiri byrðar á, þeir heilbrigðu sem þurfa minna á kerfinu að halda, muni síðar sitja við sama borð og þeir hafa þá gert í dag og við munum lækka verðið á þjónustunni. Ég held að við getum verið sammála um það.

Ég held að með þessu frumvarpi sé verið að koma á fót réttlátara og rökréttara kerfi. Það er hámark á greiðsluþátttöku sjúklinga og aldraðir, öryrkjar og börn greiða minna. Einföldun á greiðslukerfi sérfræðinga er líka stórt mál. Þá er alltaf viðmiðið að viðkomandi hafi fyrst leitað þjónustu heilsugæslunnar. Núverandi kerfi er flókið og óréttlátt. Eins og hér hefur komið fram og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra í upphafi þessa dagskrárliðar eru í gangi yfir 40 mismunandi greiðslukerfi með mismunandi afsláttarkjörum. Með því að færa þetta í eitt og einfaldara kerfi erum við að svara kallinu um réttlátara kerfi. Við erum að tala um hámarksgreiðslur í hverjum mánuði.

Hér hefur líka komið fram að það vanti sálgæsluna inn í þetta frumvarp. Ég get tekið undir það, en ráðherrann er með frumvarp í vinnslu varðandi þann lið og að sjálfsögðu munum við skoða við meðferð málsins hvort við getum bætt þeim lið inn í eða hvernig við getum komið til móts við þann hóp sem er vissulega afar mikilvægur, eins og hér hefur komið fram. Við verðum að standa vörð um þá sem eiga svartnætti yfir höfði sér þessa dagana. Þeir eru flestir nýliðar á listum yfir öryrkja og það er auðvitað verkefni sem þurfum að taka alvarlega.

Það er frjór jarðvegur í þinginu fyrir því að minnka greiðsluþátttöku almennings í kerfinu, auka þjónustuna og auka afköstin. Það er auðvitað líka margt sem við þurfum að skoða í heilbrigðisþjónustunni. Það er mikið ákall um að aukið fé sé lagt til hennar og það er ekki síst gert á landsbyggðinni. Núna þegar við höfum svigrúm til að bæta fé í heilbrigðisþjónustuna þurfum við að líta aftur til landsbyggðarinnar sem hefur þurft að láta af hendi töluvert af þeirri þjónustu sem okkur þykir sjálfsögð og var sjálfsögð á árum áður. Þar finnst mér fæðingarþjónustan og fæðingarhjálpin mikilvægustu þættirnir sem við þurfum að skoða á landsbyggðinni. Ég veit og trúi því og treysti að ráðherrann sé að skoða þau mál því að þau brenna á fólki. Unga fólkið í dag vill, eins og við hin sem áttum börnin okkar heima, geta staðið í þeim sömu sporum í sinni heimabyggð. Ég finn að það er gríðarlegur þrýstingur á þau mál og tek undir hann.

Við erum að ræða þann þrýsting sem er í samfélaginu á aukið fé í heilbrigðiskerfið og ég fagna þeirri umræðu, fagna því að þúsundir Íslendinga hafi skrifað undir áskorun til okkar um að auka fé til heilbrigðisþjónustunnar. Mér finnst það bera vott um það og sýna okkur í þessu húsi að við þurfum að taka það mjög alvarlega. Við gerum það, við munum hlusta á þær raddir. Það er okkar að sýna í framtíðinni að við tökum mark á því þegar fólk vísar þessum áhyggjum sínum til okkar og hvetur okkur til þeirra dáða að standa vörð um heilbrigðiskerfið.

Ég veit að það er í gangi, vonandi, að gera heilbrigðisáætlanir fyrir næstu ár á undan. Við erum með alls konar vegáætlanir og samgönguáætlanir og við þurfum auðvitað líka heilbrigðisáætlun til langs tíma, að sjá hvert við ætlum að stefna og hvernig við viljum sjá nýtt og betra kerfi þjóna íbúum þessa lands.

Að lokum lýsi ég yfir fögnuði yfir þessu frumvarpi. Ég hlakka til að fá að ræða það í hv. velferðarnefnd. Við munum taka þessu verkefni fegins hendi og leysa fljótt úr því með sóma og skilvirkni og ég vona að fyrir vorið verði þetta frumvarp að lögum.