145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[19:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til að fagna því sérstaklega að nefndarálit utanríkismálanefndar um tillögu þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sé fram komið.

Ég vil sömuleiðis segja að ég tel allar breytingartillögurnar sem fram koma í nefndarálitinu vera til góðs og styrkja enn frekar undirstöður þjóðaröryggisstefnunnar.

Þá er það sérstakt ánægjuefni að nefndarálitið skuli lagt fram í sameiningu og samstöðu fulltrúa. Það er ekki sjálfgefið en er vitnisburður þess hvað hægt er ef góður vilji stendur til og í fullu samræmi við þá þverpólitísku vegferð sem hafin var um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland árið 2011.

Því miður hefur sigið á ógæfuhliðina í okkar nánast umhverfi öryggismála. Hryðjuverkaárásirnar í Brussel í síðasta mánuði minntu okkur á að öryggi er ekki sjálfgefið og að óskiljanleg ódæðisverk geta átt sér stað nærri okkur í tíma og rúmi. Þeir atburðir, og því miður aðrir á undanförnum missirum, minna okkur á að gefa öryggismálum hér heima ríkari gaum, stilla saman strengi og ná sem mestri sátt um meginlínur öryggis- og varnarmála. Ég hef fulla trú á því að öryggisstefna fyrir Ísland og það nefndarálit sem liggur fyrir muni stuðla að því.

Að fengnu samþykki Alþingis mun framkvæmd stefnunnar fara í hönd, m.a. með stofnun sérstaks þjóðaröryggisráðs. Því er ætlað að hafa yfirsýn með framkvæmd stefnunnar og stuðla að auknum umræðum um öryggis- og varnarmál.

Virðulegi forseti. Hér eru stigin markverð og mikilvæg skref á Alþingi. Það hillir undir að þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland, sú fyrsta í lýðveldissögunni, verði samþykkt á Alþingi í breiðri sátt og samstöðu.

Ég vil nota tækifærið og þakka utanríkismálanefnd og hv. formanni hennar fyrir góð störf, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir að leiða þingmannanefndina á sínum tíma og skila af sér tillögum árið 2014. Þá vil ég þakka tveimur fyrirrennurum mínum í starfi, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Gunnari Braga Sveinssyni fyrir að vinna málinu framgang.

Ég tek undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að þetta er sannarlega söguleg stund og því ber að fagna.