145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur sem kom hér áðan upp í fundarstjórn forseta og gerði að umtalsefni reglur um hagsmunaskráningu þingmanna. Ég vil líka þakka hæstv. forseta fyrir þau svör sem hann veitti, sérstaklega hvað það varðaði að forsætisnefnd yrði að fara yfir þessi mál.

Hér ræðum við störf Alþingis undir þessum lið og við erum búin að eiga dálítið einkennilegt samtal þar sem ríkisstjórnin hefur stigið fram, framkvæmdarvaldið hefur stigið fram, og sagt að ekki sé hægt að efna til kosninga fyrr en einhverjum tilteknum, óskilgreindum, stórum málum sé lokið. En ég held að öllum sem hér sitja, hv. þingmönnum, hljóti að vera það morgunljóst að fyrir Alþingi Íslendinga er það stórt mál að við tökum á til að mynda þessu máli, endurskoðun reglna um hagsmunaskráningu þingmanna. Það sem við sjáum núna er að ýmsar kröfur eru uppi um hvernig hún eigi að líta út. Ýmsir þingmenn og hæstv. ráðherrar eru að taka frumkvæði í birtingu upplýsinga, sem er hið besta mál, en Alþingi Íslendinga er ekki að taka á málinu sem stofnun. Ég held að það eigi að vera eitt af stóru málunum og það eigi að vera Alþingi sem setji það mál á oddinn.

Við sem störfum á þingi eigum ekki að bíða eftir því að framkvæmdarvaldinu þóknist að birta einhvern lista yfir hvað því finnst mikilvægast að ræða á þingi áður en allra náðarsamlegast er hægt að halda kosningar eins og sumir hv. þingmenn í stjórnarliðinu tala. Forseti Alþingis á að hafa forgöngu um að þessar reglur verði endurskoðaðar út frá því sem tíðkast í okkar nágrannalöndum og út frá þeim kröfum sem eru uppi í samfélaginu um eðlilegt aðgengi almennings að upplýsingum um hv. þingmenn annars vegar og hins vegar um þá sem gegna embættum hæstv. ráðherra sem hafa að auki skyldur embættismanna en ekki aðeins kjörinna fulltrúa. Þetta, herra forseti, er mál (Forseti hringir.) sem á að ljúka áður en þingi lýkur. Til að hægt sé að ljúka því þarf að setja í það smá vinnu og ég treysti hæstv. forseta til að standa fyrir því.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna