145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

618. mál
[12:25]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það hefur verið mjög ánægjulegt að fylgjast með þeirri þróun sem hefur átt sér stað í þeirri atvinnugrein sem við fjöllum hér um, kvikmyndaiðnaði, og hversu mikil áhrif hafa verið af því að stjórnvöld hafa markað þá stefnu í gegnum tíðina að standast samkeppni við önnur lönd.

Það hefur leitt af sér aukna fjölbreytni í íslensku atvinnulífi sem er okkur kærkomin, gefur okkur mikil tækifæri. Við sjáum og heyrum það, af viðræðum við þá sem standa framarlega í þessari atvinnugrein á Íslandi, að þeir telja tækifærin jafnvel enn stærri og meiri við sjóndeildarhringinn. Þannig hefur verið haft orð á því að möguleikar okkar til frekari fullvinnslu á alvörukvikmyndum séu innan seilingar og það þarf ekki að fjölyrða um áhrif þess ef til slíks kæmi.

Aukaafurðin af allri þessari auknu fjölbreytni, öllum þeim tækjabúnaði, tækni og þekkingu sem þetta hefur innleitt í íslenskan kvikmyndaiðnað, birtist síðan í því að okkar fólk sem starfar á þessum vettvangi, Íslendingar starfandi á þessum vettvangi, öðlast miklu meiri reynslu og er þar með tilbúið til þess að færa okkur enn öflugra og betra innlent efni.

Það er eins með þessa atvinnugrein og aðrar þegar kemur að erlendri fjárfestingu í íslensku atvinnulífi að þá erum við ekkert eyland. Ég vil fagna því, sem hefur komið hér fram almennt hjá ræðumönnum, að þeir hafi skilning á því að til þess að auka fjölbreytileika og efla fjárfestingu á Íslandi þurfi ívilnanir að koma til.

Ég hef fullan skilning á því sjónarmiði sem reyndar hefur, í umræðum um ívilnanafrumvarp, verið hreyft á vettvangi atvinnuveganefndar, og kom hér fram hjá hv. þm. Sigríði Andersen áðan, að almennt eigi skattaumhverfi okkar að vera það gott og vænt fyrir atvinnulífið að ekki eigi að þurfa að koma til sérstakra ívilnana fyrir ákveðnar atvinnugreinar.

En það er nú bara þannig í þeirri veröld sem við erum þátttakendur í, og við erum að reyna að laða fyrirtæki til aukinnar fjölbreytni í íslensku atvinnulífi, að það er mikil samkeppni í þessu. Þrátt fyrir að við séum með lönd sem bjóða upp á miklu hagfelldara skattkerfi en við gerum almennt hér á Íslandi þá eru einnig þar til staðar ívilnanir sem bæta enn umhverfi fyrir nýfjárfestingar í atvinnulífinu.

Ég vil nefna Írland í því sambandi. Þar er tekjuskattur fyrirtækja 12%. Við sjáum að það er himinn og haf milli þess hvernig við skattleggjum atvinnulíf okkar miðað við Íra. Þeim hefur reyndar tekist með hagfelldu skattkerfi að laða til sín mikið af fyrirtækjum, skapað mikið af tækifærum og aukið verðmætasköpun í sínu landi. En þeir eru, eins og komið hefur fram hjá fulltrúum Íslandsstofu, sem oft koma á fund atvinnuveganefndar, með hvað öflugasta vettvanginn í þessu, að koma á móts við fyrirtæki sem eru í nýfjárfestingum. Ég lít á þetta sem slíkt verkefni.

Ég held því að það sé nokkuð í það að við séum að fara að færa skattprósentu á Íslandi niður í það sem best gerist, eins og á Írlandi — og yrði kannski seint samkomulag um það hér á hinu háa Alþingi. Því er okkur nauðsynlegt, ef við ætlum yfir höfuð að vera þátttakendur á þessum vettvangi, að stíga skref sem þetta.

Þessi grein er alveg sérlega áhugaverð fyrir okkur í ljósi þess sem ég nefndi áðan hvernig ný grein er að koma hér inn með jafn öflugum hætti og raun ber vitni. Fyrir utan þá verðmætasköpun, reynslu og þekkingu sem við þetta skapast og aukinn fjölbreytileika í íslensku atvinnulífi, aukin tækifæri fyrir ungt fólk sem vill hasla sér völl á þessum vettvangi, þá er það óumdeilanlegt að stórar kvikmyndir sem ná miklum vinsældum, þáttaraðir sem hér hafa verið framleiddar, gefa okkur ómælda og allt öðru vísi landkynningu.

Ég held að allt okkar brölt í markaðssetningu landsins sem slíks, þá er ég að tala um þau beinu framlög sem atvinnulífið og hið opinbera setur í auglýsingar og kynningarstarfsemi á opinberum vettvangi, hafi mjög litla vigt þegar kemur að atburðum eins og þessum, verkefnum eins og þessum; eða atburðum eins og eldgosi í Eyjafjallajökli. Það er fyrst og fremst samspil slíkra atburða sem við höfum ekki haft fulla stjórn á, eins og eldgos og slíkt, og síðan það að við skulum greiða leið fyrir eflingu iðnaðar sem þessa sem eiga stærstan hlut að máli. Í þessu eins og öðru verðum við að vera á tánum ef við á annað borð ætlum að vera í hópi þeirra landa sem geta þá laðað til sín atvinnustarfsemi sem þessa.

Í umræðu um atvinnumál er ákveðin þróun sem á sér stað í þá átt að menn fara alltaf að bera atvinnugreinar saman. Ég hef látið það pirra mig að við eigum frekar að leggja áherslu á þetta og hitt í stað einhvers annars. Ég er til dæmis hræddur um að ef við værum að tala um aðra atvinnugrein þá gæti verið svolítill annar söngur hér í þingsal, ef við værum að tala um framlög til annarra atvinnugreina sem sumum þóknast ekki.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að við látum af þessu og hugsum hvert svið atvinnulífsins sérstaklega og hugsum um það hvernig við getum eflt okkur og styrkt á hverju sviði þannig að úr því verði stór heildarkaka með aukinni fjölbreytni í íslensku atvinnulífi, auknum tækifærum fyrir okkar unga fólk og eflingu byggðar.

Með þessum hætti getum við haldið áfram. Við þurfum með opnum huga að leggja okkur betur fram um að ná sátt um þessi stóru mál. Við gætum tekið sjávarútveg sem dæmi, við gætum svo auðveldlega verið að ræða um hann. Við gætum svo auðveldlega, ef við hefðum misstigið okkur á sviði fiskveiðistjórnar í þessu landi, verið í sömu stöðu og flestar aðrar fiskveiðiþjóðir heimsins, til að mynda nágrannar okkar Norðmenn. Þá værum við að fjalla hér um styrki til sjávarútvegs. Það var jú áratugaböl í íslenskum sjávarútvegi. En í stað þess að fagna því að kerfið hafi, það fiskveiðistjórnarkerfi sem við settum á laggirnar, eflt greinina, aukið gríðarlega verðmætasköpun þjóðarinnar, sett okkur í fremsta sæti meðal fiskveiðiþjóða hvað varðar arðsemi af auðlindinni þá er ágreiningsefnið um það hvernig við eigum að haga okkur í þessum efnum. Það eru margir og þar á meðal margir hv. þingmenn sem vilja hreinlega kollsteypa kerfinu.

Það er ekkert sjálfsagt að atvinnugreinar blómstri. Auðvitað geta stjórnvöld á hverjum tíma haft mjög mikið um það að segja hvernig afkoma atvinnulífsins er, hver skilyrði eru fyrir fjárfestingum almennt í atvinnulífinu. Við getum nefnt orkutengdan iðnað sem við í atvinnuveganefnd, þvert á alla flokka, komumst að sameiginlegri niðurstöðu um með nefndaráliti vegna þingsályktunar hæstv. iðnaðarráðherra um nýfjárfestingar í íslensku atvinnulífi, um framtíðarsýn okkar á þessum vettvangi. Það var reyndar einn þingmaður sem ekki vildi vera með á þessu nefndaráliti, en þvert á flokka vorum við að ná okkur saman um þessa mikilvægu mynd til framtíðar.

Eitt meginþemað í niðurstöðu okkar var einmitt hvernig við gætum með aukinni fjölbreytni í atvinnulífinu, aukinni fjárfestingu, aukinni verðmætasköpun, meðal annars í orkutengdum iðnaði, með eflingu innviða í dreifikerfi orku, tryggt byggðafestu á landsbyggðinni — sem er alveg ljóst hverjum sem á horfir að verður ekki tryggð með þeim atvinnugreinum sem hafa staðið þar fremst eins og íslenskum sjávarútvegi og landbúnaði á undanförnum árum. Breyttir búskaparhættir og aukin tækni í sjávarútvegi leiða einfaldlega til þess að þarna verður breyting á.

Þetta er hluti af því. Við höfum oft heyrt um það hversu mikil vítamínsprauta stór verkefni, eins og núna norður á Mývatni, þar sem í margar vikur hefur verið unnið við framleiðslu á stórri kvikmynd, eru fyrir það byggðarlag sem í hlut á. Við fylgdumst með þessu síðastliðinn vetur á Siglufirði þegar var verið að framleiða þáttaröðina Ófærð þar sem okkar fremsta fólk kom að framleiðslu með reynsluna úr svona verkefnum sem stjórnvöld hafa skapað vettvang fyrir í farteskinu.

Hvað sem okkur finnst um skattkerfi almennt séð — og ég sagði það hér áðan að ég hef ákveðna samúð með sjónarmiðum hv. þm. Sigríðar Andersen, og er með henni í liði og þeirri hugsun að við eigum að einfalda skattkerfið og gera það hagfelldara fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Við eigum fyrst og fremst með þeirri leið að reyna að skapa þennan vettvang. En það mun ekki duga til. Við munum verða að gefa meira eftir eins og verið er að leggja til í frumvarpinu.

Með sama hætti urðum við að gefa meira eftir gagnvart orkufrekum iðnaði á Bakka við Húsavík, meira en við höfðum gert áður, og það var til þess að fá fyrirtæki til að staðsetja sig þar Norðanlands. Nú horfum við á þá birtu sem fylgir því í því byggðarlagi. Fyrirtæki er nýbúið að sækja um 40 lóðir og það er langt síðan að byggt hefur verið íbúðarhús á Húsavík.

Við verðum nefnilega að tala alla leið í þessu og það er ekki víst að hagkvæmasta leiðin sé alltaf sú skynsamlegasta. Athafnir verða alla vega að fylgja orðum þegar kemur að því að við erum í alvöru að tala um að efla byggð í landinu, skapa aðstæður fyrir ungt fólk sem í 75% tilfella, í skoðanakönnun Viðskiptablaðsins um áramótin, sagðist geta hugsað sér að búa úti á landi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem snerta atvinnu og félagslega þjónustu, skóla og heilbrigðismál og slíkt, fjarskipti, samgöngur.

Verkefni af þessu tagi eru eitt púslið í þessari stóru mynd og ég fagna þessu skrefi hæstv. iðnaðarráðherra. Ég tel að þetta verði til að efla greinina og ég hlakka til að takast á við að fylgja þessu eftir í gegnum atvinnuveganefnd. Ég bið okkur öll að sýna skilning á því að reyna að hafa umræðuna á skynsemisnótum og víkka út þau sjónarmið sem hér eru sem ég tel að fái nokkuð almennan stuðning; að við náum að víkka þá hugsun yfir í umræðu okkar um aðrar greinar atvinnulífsins.