145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

kjördagur og málaskrá ríkisstjórnarinnar.

[15:10]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Almenningur er ekki búinn að gleyma Borgunarmálinu þó að fyrirtæki ráðherra í skattaskjólum hafi tímabundið skyggt á það mál. Ég vil taka undir með hv. þm. Kristjáni L. Möller, það er algerlega óviðunandi að hæstv. fjármálaráðherra sé ekki búinn að svara þessari fyrirspurn. (Fjmrh.: Ég er búinn að svara.) Þetta er fyrirspurn til munnlegs svars sem hefur ekki fengist hér á dagskrá og var lögð fram í janúarlok. Að sjálfsögðu fyllumst við tortryggni þegar ekki er hægt að verða við ósk þingmanns, réttmætri ósk, um að ráðherra svari fyrirspurnum. Þessi ríkisstjórn er að bögglast við að koma sér saman um málaskrá og kjördag. Það er ekki nema von að illa gangi þegar þau treysta sér ekki einu sinni til að svara einföldum fyrirspurnum.

Hæstv. forseti. Það er fullt tilefni til þess að þú komir í lið með okkur og kjósendum og krefjist (Forseti hringir.) þess að menn leggi fram raunhæfar áætlanir og svari þeim fyrirspurnum sem fyrir þá eru lagðar.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna