145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

túlkun á fríverslunarsamningi EFTA og Marokkós.

717. mál
[16:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Málefni Vestur-Sahara hafa verið mér hugleikin um allnokkurt skeið. Til ársins 1975 var landið spænsk nýlenda. Brotthvarf Spánverja varð þó ekki til þess að heimamenn fengju stofnað eigið ríki heldur fór það svo að nágrannaríkið Marokkó hernam landið og hefur síðan farið með völdin þar.

Í tengslum við hernámið hefur verið reistur lengsti aðskilnaðarmúr í heimi og stærsta jarðsprengjubelti heims lagt. Stór hluti vestur-saharísku þjóðarinnar hefur búið í flóttamannabúðum í nágrannalandinu Alsír í fjóra áratugi.

Alþingi Íslendinga hefur ályktað að Ísland skuli á alþjóðavettvangi beita sér fyrir því að sjálfsákvörðunarréttur íbúa Vestur-Sahara verði virtur í samræmi við ályktanir öryggisráðs og allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson vék sérstaklega að málefnum Vestur-Sahara í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og er mér kunnugt um að eftir því var tekið af þeim sem láta sig þetta málefni varða.

Nýverið neitaði Marokkóstjórn Ban Ki-moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, um ferðaleyfi til Vestur-Sahara og rak úr landi fjölda friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna, sem er fordæmalaus aðgerð.

Síðast í morgun bárust fregnir af því að samviskufangi frá Vestur-Sahara hafi látist í gæsluvarðhaldi, líklega af völdum pyndinga. Marokkóstjórn neitar að láta rannsaka málið.

Virðulegi forseti. Hernám Marokkós á Vestur-Sahara hefur meðal annars einkennst af rányrkju auðlinda Vestur-Sahara, til að mynda fiskimiðum. Í svari norska utanríkisráðherrans frá árinu 2010 við fyrirspurn um fríverslunarsamning EFTA við Ísrael annars vegar og Marokkó hins vegar kom fram að stefna Noregs sé að fríverslunarsamningar við einstök lönd geti einungis snúið að alþjóðlega viðurkenndum landamærum þeirra. Þar sem yfirráð Marokkóstjórnar á Vestur-Sahara njóti ekki alþjóðlegrar viðurkenningar geti vörur þaðan ekki fallið undir fríverslunarsamkomulagið. Túlkun Sviss á fríverslunarsamningnum er sambærileg, en ekki alveg eins skýrt orðuð og svar norska utanríkisráðherrans.

Ég vil því spyrja hæstv. utanríkisráðherra Íslands: Er utanríkisráðherra sammála þeirri túlkun norskra og svissneskra stjórnvalda á fríverslunarsamningi EFTA og Marokkós frá árinu 1997 að hann nái ekki til varnings frá hernumdu landsvæði Vestur-Sahara?