145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

túlkun á fríverslunarsamningi EFTA og Marokkós.

717. mál
[16:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Málefni Vestur-Sahara landsvæðisins og íbúa þess hefur áður verið til umræðu á Alþingi. Þannig er þess skemmst að minnast að fyrir um tveimur árum var samþykkt þingsályktun þar sem orðrétt segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að sjálfsákvörðunarréttur íbúa Vestur-Sahara verði virtur í samræmi við ályktanir öryggisráðs og allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og styðja viðleitni til að finna friðsamlega og varanlega pólitíska lausn.“

Við meðferð þeirrar þingsályktunartillögu veitti utanríkisráðuneytið umsögn sína. Í henni kom fram það mat ráðuneytisins að stefna íslenskra stjórnvalda væri í samræmi við þingsályktunartillöguna. Í umsögninni var tekið fram að allsherjarþing og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefðu undanfarna áratugi þar á undan árlega samþykkt einróma ályktanir sem meðal annars kvæðu á um að sjálfsákvörðunarréttur íbúa Vestur-Sahara skyldi virtur í samræmi við stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og lýstu yfir stuðningi við áframhaldandi aðgerðir Sameinuðu þjóðanna til að hlutast til um pólitíska lausn. Jafnframt kom fram í umsögn ráðuneytisins að íslensk stjórnvöld hafi talið brýnt að alþjóðasamfélagið veitti þráteflinu í Vestur-Sahara verðskuldaða athygli. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafi Ísland reglulega lagt áherslu á mikilvægi þess að ná fram pólitískri lausn, eins og hv. þingmaður vék að, og sú lausn byggist á því að sjálfsákvörðunarréttur íbúa Vestur-Sahara sé virtur, m.a. með stuðningi við ofangreindar ályktanir allsherjarþingsins.

Í fyrirspurn hv. þingmanns er spurt um hvort ráðherra sé sammála þeirri túlkun norskra og svissneskra stjórnvalda að fríverslunarsamningur EFTA og Marokkós nái ekki til varnings frá Vestur-Sahara. Þessi spurning hefur mér vitanlega ekki verið til umræðu á Alþingi áður, þó að vissulega sé hún af svipuðum meiði og þingsályktunartillagan sem ég nefndi áðan. Spurningin hefur hins vegar komið upp bæði í Sviss og Noregi, eins og raunar kemur fram í fyrirspurn hv. þingmanns. Afstaða beggja ríkjanna hefur verið sú að samningurinn nái ekki til varnings frá Vestur-Sahara enda viðurkenna ríkin ekki yfirráð Marokkós yfir því landsvæði. Að því leyti sem málið hefur komið til umræðu á vettvangi EFTA hefur þessi afstaða jafnframt verið óumdeild og Ísland og Liechtenstein hafa tekið undir afstöðu Sviss og Noregs í þessu máli.

Virðulegi forseti. Svarið við þessari fyrirspurn er því skýrt. Við erum sammála þeirri túlkun norskra og svissneskra stjórnvalda á fríverslunarsamningi EFTA og Marokkós að hann nái ekki til varnings frá Vestur-Sahara landsvæðinu.