145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:25]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á þetta atriði. Þeir fjármunir sem hugsunin var alltaf að færu til vegamála á grundvelli markaðra tekna, ég hygg að það muni 8 milljörðum á því sem núna er og því sem þá væri. Þetta er náttúrlega umræða sem maður þarf að eiga við fjármálaráðuneytið og aðra aðila. Þingheimur þekkir að það hafa verið skiptar skoðanir á því hvers konar markaðar tekjur þetta eru. Reyndar er þessi umræða orðin úrelt núna út af lögunum um opinber fjármál.

Vinnan sem ég vísaði til fyrir ári síðan fór af stað og er í gangi. Ég á von á því að við munum fá að sjá eitthvað í það fyrir sumarið. Ég held að alla vega sé það ásamt öðrum tillögum sem liggja fyrir — við vitum af tillögum sem voru unnar í ráðherratíð hv. þm. Kristjáns L. Möllers. Það er ágætt að hafa í huga að ýmislegt hefur verið gert og ágætisefniviður til að halda áfram með það hvernig við viljum fjármagna samgöngukerfið. Ég vil bæta við að þótt mönnum finnist 12 ára áætlun töluvert langur tími þá langar mig stundum að segja: Eigum við ekki að horfa bara 50 ár fram í tímann?

Ég veit að hv. þingmaður spurði ekkert að því en ég verð einhvern veginn að koma því að að það getur vel verið að við þurfum að horfa á það sem þyrfti að gera hér og fara að ræða hvort við getum séð fyrir okkur að setja tvöfalda þjóðvegakerfið á ákveðnum svæðum, hvort við munum einhvern tímann vera reiðubúin til að tala um það vitandi að það verður ekki fyrr en eftir nokkuð langan tíma. Ákveðin svæði af þjóðvegakerfinu eru þess eðlis að full ástæða er til þess að vegir séu breiðari. Eða eigum við kannski að fara að ræða það hvort hægt sé að breikka vegina þannig að það séu að minnsta kosti axlir á þeim? Ferðamannastraumurinn er svo mikill og við þekkjum það að menn stoppa bara á miðjum þjóðvegi. Eigum við að fara að ræða hvernig við getum brugðist (Forseti hringir.) við því þótt við vitum að það verður ekki í þessari áætlun og ekki á næsta spátímabili heldur? Er ástæða (Forseti hringir.) fyrir okkur til að fara enn þá lengra upp þegar við ræðum um samgöngumál?