145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga.

[16:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er mjög nauðsynlegt að halda því til haga þegar spuninn hefst um það að ríkisstjórnin vilji ekki taka til rannsóknar þau mál sem hér um ræðir eins og Panama-skjölin eða önnur skattsvik sem eiga sér stað í okkar samfélagi, að þetta er auðvitað ekkert annað en dylgjur og spuni Það er ekki hægt að segja annað (Gripið fram í.) vegna þess að ítrekað hefur komið fram, virðulegi forseti, hjá forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar, bæði hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra, að þeir muni ekki gefa neitt eftir í þessum málum.

Við erum með stofnanir á vegum ríkisins sem sinna þessum málum. Það hefur komið fram að menn væru tilbúnir til að auka til þeirra fjármagn ef á þarf að halda til að taka betur á þessum málum.

En er það þannig, virðulegur forseti, að hv. þingmenn sem hér tala með þeim hætti sem hefur verið gert í dag treysti ekki þeim stofnunum til þess að fara með þau mál sem við skipum þeim til? Er það þannig að Alþingi þurfi að fara að taka yfir skattrannsóknir í landinu? Heyr á endemi.