145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga.

[16:08]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er búið að leggja hér fram mjög skýrar spurningar til forsvarsmanna stjórnarflokkanna um það hvort þeir séu reiðubúnir að styðja tillögu um að Alþingi standi fyrir rannsókn sérfróðra aðila á þessu máli, aflandsfélögum í eigu Íslendinga. Eins og hv. þingmenn hafa talað, eða öllu heldur færst í þá átt smátt og smátt eftir því sem alvarleiki málsins hefur orðið þeim ljós, þá hefði ég talið að það ætti að vera auðsótt mál að fá það á dagskrá, en samt fást ekki skýr svör frá forustumönnum stjórnarflokkanna. Það að vilja ekki að Alþingi taki skýra afstöðu í þessu máli eru mjög alvarleg pólitísk skilaboð, herra forseti. Þess vegna verður þetta mál að komast á dagskrá og það verður að komast í afgreiðslu svo hv. þingmenn geti sýnt það með atkvæði sínu hvort þeir vilja það í alvöru að Alþingi taki myndarlega á þessu máli. Það útilokar svo sannarlega ekki að styðja okkar ágætu stofnanir sem standa að þessum málum.

Þetta er auðvitað mál sem hefur stórpólitískt vægi í efnahagslífi heimsins ef það hefur farið (Forseti hringir.) fram hjá hv. þingmönnum. Það er algjörlega til skammar ef Alþingi Íslendinga, þegar (Forseti hringir.) við höfum áttað okkur á því að hér hefur verið sett heimsmet (Forseti hringir.) í notkun aflandsfélaga eftir því sem vísbendingar benda (Forseti hringir.) til, ætlar ekki að taka af myndarskap á þessu máli. Það er algjörlega til skammar, herra forseti. Og ég vil ítreka (Forseti hringir.) þá kröfu að þetta mál komist á dagskrá næst þegar þing kemur saman. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)