145. löggjafarþing — 102. fundur,  20. apr. 2016.

munnleg skýrsla menntmrh. um þjónustusamning við Ríkisútvarpið ohf., fjölmiðil í almannaþágu.

[16:46]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar aðeins að koma inn í þessa umræðu og þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna.

Ég verð að taka undir það með öðrum stjórnarandstæðingum að mér finnst þetta vera niðurskurðarþjónustusamningur. Það hefur komið fram hjá okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði þegar málefni RÚV hafa verið til umfjöllunar að við erum mjög ósátt við stefnu núverandi stjórnvalda og núverandi menntamálaráðherra þegar kemur að RÚV og hvernig haldið hefur verið á málum þar. Samningurinn er að sjálfsögðu ekki alslæmur, ekki frekar en aðrir samningar, en það breytir því þó ekki að í hann vantar fjármagn og okkur þykja framtíðarmarkmiðin frekar óljós.

Mig langar að byrja á að fara inn á fjárhagslegu hliðina því að hún hefur verið mjög mikið til umræðu. Við höfum orðið vör við að sá viðsnúningur sem hefur orðið í rekstri Ríkisútvarpsins hefur sýnt sig í verki. Það er búið að fækka fólki og það hefur sést á dagskránni, enda viðsnúningurinn gríðarlegur þegar hagnaður ársins er 80 millj. kr. fyrir skatta samanborið við 339 millj. kr. tap árið 2014. Það sér hver maður að það hlýtur að koma einhvers staðar fram, bæði í mannahaldi og eins í dagskrárgerð.

RÚV hefur selt byggingarréttinn, hann er ekki færður vegna fyrirvara í samningnum. Ef það hefði verið gert væri eigið fé 21,6% í staðinn fyrir 6,2%, en það er ágætt að varúðarráðstöfun sé hér höfð að leiðarljósi því að eftir samþykkt fjárlaganna fyrir árið 2016 og ekki síður eftir þennan þjónustusamning er ljóst að hagræða þarf í kringum 213 millj. kr. til að tryggja hallalausan rekstur þetta ár. Það þarf ekki að segja neinum hvað það þýðir í raun, dagskrárgerðin skerðist enn frekar og fólki fækkar meira.

Ég er alveg á því að RÚV eigi að sérhæfa sig og skera sig svolítið úr sem miðill en ég tel ekki miðað við það hlutverk sem honum er ætlað, m.a. að efla enn frekar innlenda dagskrárgerð, að það verði hægt þegar sá niðurskurður sem hér er boðaður heldur áfram út þetta tímabil. Við skulum ekki gleyma að það voru líka kjarasamningshækkanir hjá starfsfólki RÚV. Ef útvarpsgjaldið hefði haldist óbreytt hefði það skilað töluvert meiri fjármunum inn í reksturinn sem hefði skipt máli og komið þar á móti, sem ekki verður.

Yfirskuldsetninguna höfum við rætt oft og tíðum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um hana, ég veit að það hafa verið viðræður við LSR um þau mál: Hefur komið til skoðunar að ríkið eða ráðuneytið yfirtaki þessa skuld ásamt húseigninni að Efstaleiti 1?

Tíminn flýgur frá manni. Mig langar að segja í restina að ég er ánægð með að sjá að það á að tryggja starfsemina á landsbyggðinni. Ég hefði viljað sjá hana eflda enn frekar í staðinn fyrir að halda henni bara þar sem hún er. Það er mikil þörf á því að við heyrum að útvarpið sé virkilega útvarp allra landsmanna. Menn gera sitt besta miðað við þá fjármuni sem eru til verksins en þeir þurfa að vera meiri. Ég er ánægð með að leggja eigi aukna áherslu á íslenskt leikið efni, en tvöfalda á framlagið til leikins efnis, en forsendan er að útvarpsgjaldið lækki ekki að raunvirði, svo að það sé sagt, á samningstímanum. Það er mjög mikilvægt.

Krakka-RÚV er einstaklega vel heppnað og gott verkefni. Það er eitt af því sem á að reyna að efla. Ég vona svo sannarlega að það takist en ég hef efasemdir um að hægt verði að gera enn betur miðað við það sem RÚV stendur frammi fyrir eftir þennan samning.

Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa talað um Gullkistuna. Það er gríðarlega mikið efni sem við þurfum að koma yfir á varanlegt stafrænt form. Þetta er eitt af því sem hefur að gera með framtíðarsýnina, hér á að framkvæma kostnaðarmat og svo á að taka ákvörðun um hvort á að gera eitthvað við verkefnið. Ég held að alveg ljóst sé að við getum ekki látið hjá líða að taka þetta inn á einhvern hátt og varðveita þannig að framtíðarfólkið okkar hafi aðgang að efninu. Ég vona svo sannarlega að það verði sýnt í þeirri stefnumótun sem Ríkisútvarpið á að koma fram með á þessu ári, hvernig það eigi að þróast til framtíðar, (Forseti hringir.) að það verði inni. Og að Alþingi sjái sér fært að styðja almennilega (Forseti hringir.) við bakið á RÚV þannig að það geti starfað sómasamlega.