145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

málefni skattaskjóla.

[11:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Menn komast ekkert í kringum það. Ef menn setja löggjöf um CFC-félög og gefa út upplýsingar, leiðbeiningar um það hvernig menn eigi að gera grein fyrir þeim hlutum, setja á sama tíma reglu um að menn fái ekki að njóta ávinningsins, hins skattalega ávinnings sem gæti falist í því að vera á slíku skattsvæði, nema upp að vissu marki, menn fá ekki að njóta þess nema upp að vissu marki, þá eru menn þar með búnir að búa til umgjörð fyrir starfsemi, eignir og tekjur á slíkum svæðum. Þetta verða menn að viðurkenna. (Gripið fram í.)

Það er auðvitað með ólíkindum að á þinginu komi síðan í framhaldinu fram tillaga, sem við ætlum að ræða á föstudaginn, um að setja skuli á fót sérstaka rannsóknarnefnd til að lista upp það fólk og birta opinberlega í skýrslu nöfn þeirra sem hafa fylgt lögum sem þetta sama og fólk hefur sett. Það er mjög merkilegt hvert menn eru komnir í þessari umræðu.

En ég (Forseti hringir.) lýsi fullum vilja til að eiga samstarf við hvern þann sem á Alþingi leggur áherslu á að við upprætum skattsvikin, við náum í þá sem reyna að skjóta sér undan, (Forseti hringir.) við berjumst gegn peningaþvætti. Ég hef persónulega skrifað undir samninga á vegum OECD (Forseti hringir.) til þess að Ísland taki mikinn og fullan þátt í því og sé í fremstu röð(Forseti hringir.) og við ætlum að halda því starfi áfram.