145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 230/2015 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

684. mál
[14:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 230/2015 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn um umhverfismál og fella inn í samninginn reglugerðir um tilflutning úrgangs.

Með gerðunum er ætlunin að bæta framfylgni og eftirlit með flutningi úrgangs og koma í veg fyrir ólöglegan flutning á úrgangi milli ríkja. Komið skal á laggirnar eftirlitsáætlun sem byggist á áhættumati. Gerð er krafa um virkt eftirlit, eftirlitsferðir eða skoðanir. Skila skal árlega skýrslu um eftirlitið til Eftirlitsstofnunar EFTA.

Innleiðing gerðanna kallar á lagabreytingar hérlendis og er gert ráð fyrir að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir á yfirstandandi þingi.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegur forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.