145. löggjafarþing — 103. fundur,  28. apr. 2016.

fjármálafyrirtæki.

561. mál
[15:52]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og hafði áður sent málið út til umsagnar til um 20 aðila en umsagnir bárust frá tveimur.

Mál þetta er ekki nýtt af nálinni, komið hingað margoft eða nokkrum sinnum, til umræðu í þessum sal. Hér er einungis verið að leggja til framlengingu á bráðabirgðaákvæði VI við lög um fjármálafyrirtæki, en samhljóða ákvæði var upphaflega sett í lög með hinum svokölluðu neyðarlögum. Ákvæðið var síðan lögfest sem bráðabirgðaákvæði VI við lög um fjármálafyrirtæki árið 2009 og hefur gildistími þess fjórum sinnum verið framlengdur, þannig að hér er um það að ræða að verið er að framlengja þetta bráðabirgðaákvæði í fimmta sinn.

Ákvæðið veitir Fjármálaeftirlitinu heimild til þess að grípa til sérstakra ráðstafana við ákveðnar aðstæður eða atvik til þess að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði.

Nefndin vekur á því athygli að ekki er langt síðan ákvæðinu var síðast beitt en það var í mars 2015 þegar Fjármálaeftirlitið tók ákvörðun um samruna án skuldaskila þannig að Sparisjóður Vestmannaeyja var sameinaður Landsbankanum hf. með yfirtöku eigna og skulda og sparisjóðnum slitið. Nefndin telur að ef sambærilegar aðstæður koma upp sé nauðsynlegt að hægt sé að grípa fljótt til slíkra ráðstafana til að takmarka tjón innstæðueigenda og fjárfesta og koma í veg fyrir óstöðugleika á fjármálamörkuðum. Því er mikilvægt að slík heimild sé til staðar.

Hins vegar er fyrirhugað að leiða í lög tilskipun Evrópusambandsins sem varðar viðbúnað, skil og slit fjármálafyrirtækja, sem yrði þá löggjöf sem fjallar almennt og heildstætt um slit fjármálafyrirtækja þar sem ákvæði sem þetta yrði lögfest. Frumvarpið liggur nú ekki fyrir enn sem komið er og þess vegna styður nefndin að ákvæði þetta haldi áfram gildi sínu fram til ársloka 2017.

En rétt er að lokum, virðulegur forseti, að taka fram eða árétta það sem fram kemur í frumvarpinu að ríkar kröfur gilda í dag um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja. Engin teikn eru á lofti um annað en heilbrigðan rekstur þeirra fjármálafyrirtækja sem nú starfa. Að þessu sögðu vil ég bara vísa í nefndarálitið sem liggur frammi á þskj. 1183.

Undir nefndarálitið skrifar meiri hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar og auk þeirrar sem hér stendur Frosti Sigurjónsson, formaður nefndarinnar, Vilhjálmur Bjarnason, Willum Þór Þórsson, Guðmundur Steingrímsson og Katrín Jakobsdóttir.