145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[11:57]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er ekki hægt annað en að taka undir það sem hér hefur komið fram, það er alveg augljóst að þetta er ekki mál stjórnarandstöðunnar, þetta hlýtur að vera mál okkar allra og ekki bara okkar þingmanna. Þetta er mikilvægt mál eins og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var á sínum tíma. Við sjáum hvað rannsóknarblaðamennirnir hafa gert í kjölfar þess, þ.e. hverju þeir hafa bætt við það sem þar kemur fram. Það er augljóst að þetta er eitthvað sem þjóðin þarf á að halda, að fá að sjá og vita uppruna skattaskjóla og eigna fyrirtækja í skattaskjólslöndum. Það að ráðherrar sem bendlaðir hafa verið við Panama-skjölin telji ekki ástæðu til að sitja hér og taka þátt í umræðunni er eiginlega alveg merkilegt. Eins og hv. flutningsmaður tillögunnar nefndi hefur auðvitað komið fram viðhorf hæstv. skattamálaráðherra okkar, Bjarna Benediktssonar. Hann lítur á þessa tillögu sem algjörlega óþarfa sem lýsir því kannski hvers vegna hann er ekki hér í dag að taka þátt í þessari umræðu. En hún er ekki óþörf, hún er mjög mikilvæg.