145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[12:21]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég er alveg sammála síðasta ræðumanni um málið sé mjög mikilvægt. Þess vegna gerum við athugasemd við fundarstjórn forseta, því að þegar þetta mál var sett á dagskrá dagsins gerðum við ráð fyrir að við mundum eiga samtal við stjórnarmeirihlutann og hugsanlega ráðherra, sem er ekki óeðlilegt í ljósi þess hversu stórt málið er. Það er í raun hluti af því að bregðast við því ástandi sem upp er komið í samfélaginu eftir þennan Panama-leka, sem hefur orðið til þess að formaður Framsóknarflokksins þurfti að segja af sér ráðherradómi. En hvorki hæstv. forsætisráðherra né hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sjá ástæðu til að vera hér og ræða þessi mál, til að segja okkur hvernig þeir ætla að bregðast við, hvað þeir ætli að gera eða hvort þeir telji yfir höfuð ástæðu til þess. Það er mjög mikilvægt að eiga slíkt samtal. Það er það sem við gerum athugasemd við, virðulegi forseti, að þeir aðilar séu ekki í samtalinu.