145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[12:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er að vísu ekki alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta hafi byrjað eftir að bankarnir voru einkavæddir. Eins og hv. þingmaður veit og er vel þekkt þá byrjaði þetta og var auglýst með stórum heilsíðuauglýsingum þegar Landsbankinn var ríkisbanki og sá aðili sem stóð fyrir því og var í forsvari fyrir það var síðan ráðinn forstjóri Fjármálaeftirlitsins á síðasta kjörtímabili.

Samfylkingin fékk mjög merkilegan fyrirlesara til sín, John Kay, sem er prófessor við London School of Economics. Hann var, fannst mér, með mjög málefnalegar og góðar athugasemdir, hann vill berjast gegn þessu eins og ég held að allir vilji, en í frétt um þetta segir, með leyfi forseta:

„Hann segir miklu máli skipta að fara varlega og skilja á milli þeirra fyrirtækja sem stofnuð eru í þessum ríkjum í heiðarlegum tilgangi annars vegar og hins vegar í þeim tilgangi að svíkja undan skatti eða þvætta peninga.“

Mér finnst þegar ég hlusta á hv. þingmann að hann vilji ekki gera þennan greinarmun. Ég vildi fá að vita það bara skýrt: Er hv. þingmaður sammála prófessornum um að það eigi að gera þennan greinarmun? Ég held að vísu að flestir komist að þeirri niðurstöðu að það sé eðlilegt og annað sé vægast sagt ósanngjarnt.

Hvað sem því líður þá hlýt ég líka að spyrja út af þessari eldræðu hv. þingmanns hvort hann sé búinn að skipta um skoðun varðandi Evrópusamstarfið. Ég sé ekki alveg hvernig við eigum að geta lokað landinu eins og hv. þingmaður talaði um ef við ætlum að vera í EES, ég tala nú ekki um ESB. Hv. þm. Frosti Sigurjónsson talar náttúrlega um skattsvikin eða skattundanskotin í Evrópusambandinu sem eru bara stefna Evrópusambandsins og hv. þingmaður sjálfur nefndi það að formaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er fyrrverandi forsætisráðherra Lúxemborgar og allt þetta umhverfðist þetta nú í gegnum fjármálakerfi Evrópusambandsins.

Þannig að ég er með (Forseti hringir.) tvær spurningar fyrir hv. þingmann, hvort hann sé sammála útleggingu Johns Kays og sömuleiðis hvort hv. þingmaður sé búinn að skipta um skoðun varðandi þátttöku okkar í Evrópusamstarfinu.