145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[14:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil lesa úr frétt úr Morgunblaðinu frá 22. apríl á þessu ári, með leyfi forseta:

„Stjórn Orkuveitunnar samþykkti í fyrra að stofna aflandsfélag um tryggingar eigin eigna. Ákvörðunin var lögð fyrir eigendur til staðfestingar. Svar hefur ekki fengist.“

Annars staðar í fréttinni er talað við upplýsingafulltrúann, Eirík Hjálmarsson, með leyfi forseta:

„Aðspurður hvort stjórnin hafi enn þá áhuga á stofnun aflandsfélags svarar Eiríkur játandi og bætir við að málið hafi fengið töluverða skoðun og rýni innan húss.

„Menn voru alveg með opin augu fyrir því að þetta kynni að orka tvímælis. Jafnvel þótt fyrirkomulagið gæti þýtt að skattgreiðslur hér á landi myndu aukast, þá vissu menn að þetta fyrirkomulag væri ekki óumdeilt,“ segir hann.

Aðspurður hvernig skattgreiðslur hér á landi komi til með að aukast segir Eiríkur að kostnaðurinn sem Orkuveitan er í dag að greiða til erlendra milliliða yrði að hagnaði hjá Orkuveitunni. Hagnaði sem skattar eru greiddir af.

„Við teljum að í þessu geti falist fjárhagslegur ábati fyrir fyrirtækið og eigendur þess en erum þó meðvitaðir um mórölsk álitamál“, segir Eiríkur.“

Það liggur því alveg fyrir að farið var í þetta og ég veit ekki alveg hvað hv. þingmaður á við varðandi það að þetta sé sett í fundargerðina. Skárra væri það nú ef opinberir aðilar mundu ekki hafa hlutina í fundargerðum. (Gripið fram í.) Ef menn tala um aflandsfélög til eða frá held ég að við verðum að tala um hlutina eins og þeir eru. Það er ekki sannfærandi að á sama tíma og menn segja: Aflandsfélög á að afleggja með öllu og menn eiga ekki að koma nálægt þeim, á sama tíma og menn eru að stofna aflandsfélög. Það er bara ekki sannfærandi. Ég held að hver maður sjái það. Síðan hef ég verið að kalla eftir því hvort þeir aðilar sem talað hafa fyrir Evrópusamstarfinu hafi endurskoðað afstöðu sína til þess ef þeir eru algerlega á móti þessu. Ég get ekki séð að meðan evrópska reglugerðarverkið er með þessum hætti að við getum aflagt þetta með öllu.

Aðalatriðið er, og ég held að við (Forseti hringir.) hljótum að vera sammála um það, að það er sérkennilegt að segja: (Forseti hringir.) Ég vil alls ekki sjá starfsemi aflandsfélaga, á sama tíma og menn stofna aflandsfélög.