145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[14:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður veldur mér miklum vonbrigðum. Ég þarf ekki að vera sammála hv. þingmanni en mér hefur alla jafna fundist hv. þingmaður vera málefnalegur. Nú segir hann: Heyrið, sjáið sko annars vegar mál hæstv. fjármálaráðherra og hins vegar Orkuveitunnar, Orkuveitan er opinber og það er allt í lagi en hæstv. fjármálaráðherra, hann er í þessu, og það er ekki á opinberum vettvangi. Ég held að allir sem hafi hlustað á þetta hafi metið það þannig að hæstv. fjármálaráðherra væri núna að stofna aflandsfélag.

Hv. þingmaður veit það að þetta var 2006, fyrir tíu árum síðan. Hann veit að hæstv. ráðherra var ekki ráðherra þá, var ekki formaður Sjálfstæðisflokksins, og hann tók þátt í viðskiptum. Hann gaf þetta upp (Gripið fram í.) og hefur ekki falið neitt hvað þetta varðar. Ef menn halda ræður eins og hv. þingmaður gerði áðan getur verið að eftir smástund eða einhvern tíma hugsi allir bara: Já, hæstv. fjármálaráðherra, hann á bara fullt af aflandsfélögum. En það er bara ekki rétt. Þetta var fyrir tíu árum síðan. Hann var þá í viðskiptum. Hann hefur gert fulla grein fyrir því. Hann gerði það allt samkvæmt skattalögum.

Ég vísa hér í John Kay, sem mér fannst nú hv. þingmaður segja, alla vega þegar átt væri við Orkuveituna og Pírata, að munur væri á því hvort menn stofnuðu aflandsfélög í löglegum tilgangi eða hvort menn gerðu þetta til þess að svíkja undan skatti og til þess að þvætta peninga. Ef við tökum skilgreiningu John Kay liggur alveg ljóst fyrir að hæstv. fjármálaráðherra hefur alveg staðist þá skilgreiningu sem prófessorinn frá London School of Economics, sem Samfylkingin boðaði hingað, lagði upp með. Ég skil ekki af hverju menn reyna þá samt sem áður að láta þetta líta út fyrir að vera ekki þannig. Ég skil ekki af hverju menn vilja þá ekki ræða vandamálið skattundanskot og fara þá efnislega í það sem til dæmis þessi ríkisstjórn (Forseti hringir.) hefur gert. Getum við gert betur? Förum þá yfir það. Það er mikilvægt. Áttum við að samþykkja tillögu (Forseti hringir.) hv. þm. Lilju Mósesdóttur á síðasta kjörtímabili? Eigum við kannski að hlusta á fyrrverandi hv. þingmann núna? Kannski væri gott ef hún færi á þingflokksfund hjá Vinstri grænum.