145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[14:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni. Það eiga að gilda einar reglur og menn eiga ekki að svíkja undan sköttum, menn eiga bara ekki að svíkja undan skatti, svo einfalt er það, alveg sama hvaða aðferðir menn fara í því. Hér talar hv. þingmaður um að orð fyrirlesarans séu ekki sakavottorð fyrir starfsemi aflandsfélaga. Þarf hv. þingmaður ekki að fara að tala þá við sitt fólk í Samfylkingunni? (Gripið fram í.) Hv. þingmaður veit það eins og allir vita að borgarstjórn undir forustu Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata var að stofna aflandsfélög. (Gripið fram í: Nei.) Samþykkti að stofna aflandsfélög, stjórn þeirra samþykkti að stofna aflandsfélög. Ég spurði líka hv. þingmann hvort hún vissi eitthvað um tilurð erlendu félaganna með þessi rammíslensku nöfn, Fjölnir og Fjalar, sem leigja Samfylkingunni húsnæði. Miðað við fréttir, ég veit ekki meira en það sem kemur fram í fréttum, er það undir markaðsleigu, sem er svolítið stórt mál. Ég spurði hv. þingmann hvort hún vissi eitthvað um tilurð þeirra út af þessum stóru ræðum sem hér eru haldnar, ég bíð eftir því svari.

Ég spyr líka hv. þingmann, ekki bara um Fjölni og Fjalar, heldur um ESB og Evrópusamstarfið. Ef við ætlum að vinna gegn skattsvikum, og nú er það kannski raunhæft, ég veit það ekki, ég er algjörlega á móti skattsvikum, alveg sama hvaða nafni þau nefnast, ég er ekki að tala fyrir aflandsfélögum sem ég hef sagt að séu í besta falli ósiður, en hvaða afstöðu hefur hv. þingmaður til Evrópusamstarfsins? Á grunni Evrópusamstarfsins er þetta gert, á grunni EES-samningsins. Hér er um að ræða lönd sem eru lykilríki, kjarnaríki Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins. Þannig að ég spyr hv. þingmann aftur í fyrsta lagi: Þarf hún ekki að ræða þetta í Samfylkingunni? Og ég spyr hvort hv. þingmaður viti eitthvað um þessi félög með rammíslensku nöfnin sem ég nefndi. Ég vek líka athygli á því, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að fyrirlesarinn var hér síðasta laugardag en ekki í gær.