145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[16:54]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. frummælanda Árna Páli Árnasyni fyrir tillöguna og ágæta ræðu. Það sem ég er algerlega sammála í þessu er markmið aðgerðanna sem er að koma í veg fyrir leynd yfir eignarhaldi félaga í lágskattaríkjum og koma í veg fyrir skattundanskot. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við vinnum öll að því og held að það sé algjör samstaða um það í þinginu.

En ég hef nokkrar spurningar um það hverju sé hægt að ná fram með þeirri leið að Ísland taki frumkvæði í því að beita sér fyrir alþjóðlegum viðskiptaþvingunum gagnvart lágskattaríkjum sem mörg hver eru ríki þar sem lýðræði er hvorki mikið né virkt þannig að þeir sem finna fyrir viðskiptaþvingununum eru kannski almenningur í þessum ríkjum, oft fátækt fólk. Ég spyr hvort þetta sé vænlegt til árangurs, hvort þetta geti ekki bara valdið skaða. Óforskömmuð stjórnvöld hafa hingað til dregið lappirnar í því að skiptast á upplýsingum, það er löngu búið að skrifa undir alla upplýsingasamninga við OECD en 38 lögsögur draga lappirnar. Eins og kom fram í ágætu erindi hv. þingmanns eru því miður Liechtenstein, Malta og Kýpur þar á meðal, ríki sem maður hefði haldið að væri vel stjórnað og væru vönd að virðingu sinni.

Þetta er líka vandamál ef maður tekur mark á samtökunum Tax Justice Network, þau hafa gert lista yfir stærstu skattaskjól í heimi. Þar eru Sviss, Hong Kong og Bandaríkin í efstu sætunum. Lúxemborg og Þýskaland eru líka ofarlega á listanum. Höfum við engar áhyggjur af því að fara að beita þessi ríki viðskiptaþvingunum? Ég held að eitt ætti yfir alla að ganga. Hverjar gætu gagnaðgerðir Bandaríkjamanna orðið ef þeim mislíka þessar þvinganir? Eða Hong Kong eða öðrum ríkjum sem við reiðum okkur á viðskipti við? 53% af okkar landsframleiðslu eru í formi útflutningstekna (Forseti hringir.) og byggja á frjálsum viðskiptum. Ég hef efasemdir um að þessi leið sé sú besta en kem í seinna andsvari að öðrum leiðum.