145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[17:24]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alls ekki markmið mitt að drepa umræðunni á dreif, alls ekki, heldur fyrst og fremst að reyna að varpa ljósi á raunveruleikann. Ég veit að hv. þingmanni er það kannski ekki ljóst að í Hollandi getur hann stofnað fyrirtæki og það fyrirtæki getur lánað fyrirtækinu hans á Íslandi, sem er rekið með miklum hagnaði, peninga á nokkuð háum vöxtum eða bara miklu meiri peninga en fyrirtækið þarf. Svo eru vextir greiddir út til Hollands, hollenska fyrirtækinu, og það er undir sérstökum lögum og þarf ekki að greiða neina skatta af vöxtunum þar, þeir eru frádráttarbærir frá skatti hér. Svo er annað fyrirtæki í Delaware sem tengist þessu hollenska fyrirtæki og hefur lánað því peningana. Eftir nokkra svona hluti þar sem allt eru hinar virtustu lögsögur er búið að koma peningunum undan skatti. Þetta er ekki gott. Við verðum að horfast í augu við vandann.

Ég er að segja: Áður en við förum að benda á aðra og segja þeim að laga til hjá sér ættum við að laga til hjá okkur. Við ættum að gera alveg hreint, krefjast þess að þeir sem eiga hlutabréf í íslenskum fyrirtækjum, ráðandi hluti, njóti hreinlega ekki þeirra réttinda sem slík hlutabréf veita, nema þeir segi hverjir þeir eru. Þá geta þeir ekki verið með einhverja eigendur á aflandseyjum sem eiga þessi bréf í raun og veru og fara með þessa hluti. Síðan geta aðrir bara farið að okkar góða fordæmi. Það var alls ekki tilgangur minn með því að benda á þetta að gera lítið úr vanda þessara aflandseyja sem eru í Suðurhöfum, Bresku Jómfrúreyjunum og öðrum. Þar er virkilega mikil spilling grasserandi og alveg réttilega orðað hálfgerð glæpastarfsemi. Þau fyrirtæki hafa dregið lappirnar í því að taka þátt í upplýsingaskiptasamningum vegna þess að þau beinlínis lifa á þessu, hafa tekjur af þessu, að hjálpa fólki að fela fé.

Við getum sett það í lög hjá okkur að íslenskir aðilar taki bara ekki þátt í því að stofna fyrirtæki þar. Það er eitt af því sem ég er að leggja til hér. Það er á okkar valdi að ákveða það. Þetta er punkturinn sem ég vildi koma áleiðis.