145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[16:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg rétt að skoða þurfi frítekjumarkið sérstaklega. En þarna er ekki aðeins um að ræða það sem námsmenn leggja fyrir í háskólanámi heldur líka sparnaðinn fyrir þann tíma. Flest íslensk ungmenni vinna á sumrin meðan þau eru í framhaldsskóla og jafnvel fyrr. Sumir taka sér líka frí áður en þeir hefja háskólanám. Þetta gengur náttúrlega út á það að þegar fólk hefur lokið háskólanámi geti það nýtt þessa leið. Þetta er misjafnt eftir einstaklingum. Það eru fá þjóðfélög, held ég, sem geta boðið einstaklingum upp á það að um leið og þeir ljúka námi geti þeir keypt sér íbúð. Ég er ekki að segja að það sé algjörlega ómögulegt, en ég er ekki viss um að það sé alveg rétt að miða við það. Menn gætu hins vegar hugsað líka að það sem við viljum halda í er samtryggingin í lífeyrissjóðakerfinu en menn öðlast ekki samtryggingu nema vinna í þrjú ár samfleytt. Það má því færa rök fyrir því að við séum svolítið að snuða unga fólkið okkar sem vinnur sumarvinnu í gegnum lífeyrissjóðakerfið þar sem það ávinnur sér aldrei réttindi til örorkulífeyris, makalífeyris og barnalífeyris vegna þess að það nær ekki að vinna í þrjú ár samfleytt. Ef það væri til dæmis nýtt í séreign held ég að það hefði jákvæð áhrif og hvetti fólk til sparnaðar. Það er mikilvægt að skoða þetta í því samhengi. Ég held að við eigum að gera þetta mjög hratt og það kemur frumvarp frá hæstv. fjármálaráðherra sem snýr að viðbótarlífeyrissparnaðarkerfinu og í tengslum við húsnæðiskaupin, sem er grunnurinn að þessu. Nú reynir á okkur, hversu vel við getum unnið, því að eðli málsins samkvæmt, og við þekkjum það vandamál, á ungt fólk erfitt með að eignast þak yfir höfuðið. (Forseti hringir.) Við þurfum að bæta úr því.