145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

skipan stjórnar Orkubús Vestfjarða.

[15:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við skipum í stjórnina lögum samkvæmt. Ég kannast ekki við að neinu hafi verið breytt í verklagi frá því að ég kom í ráðuneytið. Ég veit ekki betur en að sami stjórnarformaður sé enn í Orkubúinu og verið hefur, þ.e. var áður en ég kom þar að málum. Síðan verða alltaf mannabreytingar eins og gengur og gerist. Ég kannast ekki við þetta sem nefnt er, að skort hafi á að viðbótarvaramaður væri skipaður eða kosinn á aðalfundi. Ég kannast ekki við málið, hef ekki heyrt af því, og ég hef sömuleiðis engin mál til meðferðar í þinginu sem varða stjórnina, hef ekki fengið nein tilefni til þess að taka til meðferðar í ráðuneytinu einhver mál sem varða ákvarðanir stjórnarinnar.

Það er í sjálfu sér ekki óvanalegt að einhver ágreiningur geti myndast eða verið skiptar skoðanir um mannaráðningar hjá félagi eins og Orkubúi Vestfjarða og mörg dæmi um það eins og við þekkjum. Sum þeirra hafa ratað til dómstóla á endanum en mér er ekki kunnugt um að neinn slíkur ágreiningur sé útistandandi um Orkubúið.