145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga.

[16:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Panama-skjölin svokölluð minntu fólk á ákveðinn menningarmun, ákveðinn atburð sem í daglegu tali er kallaður hrunið. Fyrir hrun man ég, og ég held að margir muni eftir því, að ákveðin kúlistamenning var í gangi í fjármálum, fyrirtækjarekstri og athafnastarfsemi almennt. Þessi kúlistamenning var þannig að mönnum virtist finnast mjög flott að snúa á kerfið, vera einhvern veginn snjallara en það system sem þeir bjuggu við. Ég hygg að þetta mál minni fólk sérstaklega á þessa menningu og þá vitfirringu sem átti sér stað fyrir hrun, þegar menn láta alltaf eins og allt sé eðlilegt sem greinilega hneykslar almenning.

Nú er víst að fjölmargir skilja ekki eðli þess að vera með eignir hér eða hvernig skattkerfið virkar hér eða þar eða hvernig alþjóðleg viðskipti virka yfir höfuð, en því meiri ástæða er til þess að hamra á því að stjórnmálamenn þurfa að njóta trúverðugleika. Þeir þurfa að njóta trúverðugleika á að a.m.k. tvennan hátt, annars vegar gagnvart almenningi í landinu og hins vegar gagnvart alþjóðasamfélaginu, ekki síst erlendum hagkerfum ef má orða það svo.

Það sem vantar enn þá er uppgjör við það sem mönnum finnst vera eðlileg starfsemi. Menn geta kallað hvað sem er eðlilega starfsemi svo lengi sem þeir geta kallað hana löglega, en krafan er dýpri en svo. Það þarf meira en að hlutirnir séu löglegir. Þessi kúlistamenning er ekki nógu góð, hversu eðlileg sem hún kann að virðast sumum. Það er ákall um að trúverðugleiki verði eitthvað sem menn deili ekki um að sé til staðar. Menn færu þá kannski frekar að deila um annað en það hvort hæstv. fjármálaráðherra hafi beina hagsmuni af niðurstöðum úr tilteknum umræðum. Þegar hér kom til dæmis upp umræða um kaup á skattgögnum, þá var hæstv. fjármálaráðherra með skoðanir, málefnalegar sjálfsagt, en hvernig á maður að vita það? Síðan kemur í ljós að menn meintu það sem þeir sögðu einhvern veginn allt öðruvísi en allir skildu það. Hvernig á maður að trúa þeim næst? Ef einhver kemur með hugmyndir um að banna það að eiga eignir í skattaskjólum, hvernig á að vera hægt að trúa því undir þessum kringumstæðum þegar menn hafa verið á móti því? Tónninn sem er sleginn í þessari umræðu er oft á tíðum þannig að hann hentar kúlistunum. Hann hentar þeim sem finnst allt eðlilegt sem er löglegt og kæra sig kollótta um það hvað þykir ásættanlegt siðferðilega, ekki löglega heldur siðferðilega.

Það er trúverðugleikinn í stjórnmálum sem við þurfum að halda í eða öllu heldur öðlast á ný, vegna þess að eins og er þá er tortryggni nauðsynleg. Hún er algjörlega nauðsynleg. Ef menn væru ekki tortryggnir núna þá væru þeir ekki að fylgjast með. Svo koma sumir hv. þingmenn og kvarta undan því hvernig stjórnarandstaðan talar. Hvernig ætti stjórnarandstaðan að tala? Hvað mundu hv. þingmenn meiri hlutans segja í þingsal ef þeir væru í sporum stjórnarandstöðunnar svokallaðrar? Ættum við að standa hér og segja bara: Nú, þetta er allt í góðu, það þarf ekkert að laga hér, almenningur er að misskilja þetta. Auðvitað er alltaf hægt að segja að hinn og þess stjórnmálamaður sé alltaf að tala í pólitískum tilgangi og á ákveðinn hátt er það rétt í allri stjórnmálaumræðu. En tortryggnin sem við búum við í dag er nauðsynleg. Það er það sorglega í málinu, hún er algjörlega nauðsynleg. Það væri óábyrgt að vera ekki tortrygginn eftir það sem hefur komið í ljós. Það er vandamál. Það vandamál verður ekki leyst nema með því að menn axli pólitíska ábyrgð, ekki bara lagalega ábyrgð heldur pólitíska ábyrgð og siðferðilega ábyrgð.

Það hefur oft verið sagt hér af fulltrúum úr fleiri en einum hv. flokki að ástæða þess að geyma eignir í skattaskjólum, eða aflöndum eða hvað maður á að kalla þessa staði, sé tvíþætt. Enn sem komið er hef ég ekki heyrt aðrar ástæður. Það er annars vegar að leyna eignarhaldi og hins vegar að komast undan skattheimtu. Ef menn geyma eignir á þessum svæðum og það kemur í ljós og þeir vilja meina að það sé eðlilegt að þeir hafi verið að leyna eignum, þá verða þeir að útskýra hvers vegna. Þeir þurfa að útskýra það á þann hátt að hið háa Alþingi og alþingismenn geti útskýrt fyrir öllum landsmönnum hvernig það sé eðlilegt og almenningur hafi færi og ástæðu til að trúa stjórnmálamönnum til tilbreytingar.

Ástæðan fyrir því að menn geyma eignir á þessum svæðum er auðvitað sú að þeir hafa einhverja hagsmuni af því. Hvaða hagsmuni? Ja, einhvers konar hagsmuni sem hinn almenni borgari hefur ekki kost á. Ef hinir geta leyft sér það að nota þessi svæði til þess, ættu þá ekki allir að gera það? Og ef ekki, hvers vegna ekki? Vegna þess að hann er bara almennur borgari. Hann er ekki hluti af þessari kúlistamenningu þar sem menn fá einhvern veginn að gera hluti sem eru flottir og snúa á kerfið ýmist með ljósum eða óljósum hætti.

Þegar svona mál koma upp þurfum við að sýna að okkur sé alvara. Það getur kostað. Það getur kostað völd. Það getur kostað stöður. Það getur kostað slettur á jakkafötin að sýna alvöru í svona málum. En nú erum við með fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, núverandi hæstv. fjármálaráðherra og síðast en ekki síst forseta lýðveldisins sjálfan, sem eru flæktir í þá alþjóðlegu umræðu sem enn og aftur er Íslandi til skammar, því miður. Ef við ætlum að komast út úr þeirri vegferð þurfum við að sýna að okkur sé alvara með því að sanna það að við virðum málefnið trúverðugleiki Íslands meira en stöðu okkar sem stjórnmálamanna.