145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

grunnskólar.

675. mál
[18:21]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gríp niður í texta greinargerðarinnar, með leyfi forseta, hvað varðar tilganginn með frumvarpinu, þ.e. „að tryggja að íslensk lög útiloki ekki með öllu rétt manna til að setja á fót skóla án opinberra fjárframlaga, eins og raunin virðist vera að gildandi lögum.“ Það er grundvallaratriði. Okkur er ekki stætt á því að mínu mati að banna einstaklingum að stofna og reka skóla.

Spurningin er áhugaverð sem hv. þingmaður beinir til mín, þ.e. hvort settar verði einhverjar sérstakar reglur um upphæð skólagjalda. Ég held að vel sé hægt að hugsa sér slíkt. Það er ekki sérstaklega tekið á því hér, en ég held að þetta sé ágæt ábending og þörf fyrir nefndina að ræða og horfa til dæmis til þess hver fjárframlögin eru að meðaltali í skólum á viðkomandi svæði, eins og við gerum í raun og veru þegar verið er að reikna út framlögin til einkareknu skólanna, þ.e. horft er til einhvers landsmeðaltals og skólarnir fá síðan ákveðið hlutfall af því og mega síðan bæta sér upp skólagjöld þar ofan á. Væntanlega yrði að horfa til einhverra slíkra sjónarmiða hvað þetta varðar og sjálfsagt og eðlilegt að í meðförum nefndarinnar og þingsins sé það þá rætt hvort það sé skynsamlegt eða eðlilegt að koma inn orðalagi þar að lútandi. Ég mun í það minnsta ekki standa gegn slíku.

Það er reyndar sagt í frumvarpstextanum í greinargerðinni að það megi heita nokkuð ólíklegt að þetta verði vandamál sem komi oft upp. En ástæðan fyrir að ákvæðið er svona er sú að það er mitt mat að ekki sé hægt að banna aðilum að stofna skóla. Ég tel að ekki sé hægt að hafa íslensk lög þannig að hægt sé að banna þeim það, en með viðurkenningu (Forseti hringir.) ráðuneytisins myndast ekki með nokkrum hætti krafa eða réttur til opinbers fjárframlags. Það er mjög mikilvægt að það sé alveg skýrt.