145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

lögreglulög.

658. mál
[18:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp hæstv. innanríkisráðherra um eftirlit með störfum lögreglu, málaflokk sem sá sem hér stendur og píratar hafa lengi vel haft mikinn áhuga á, enda lögðum við fram þingsályktunartillögu í tvígang um að koma á fót sérstakri stofnun eða sérstöku embætti til að sinna því hlutverki að hafa eftirlit með störfum og starfsháttum lögreglu. Þörfin er til staðar, það þori ég að fullyrða. En þetta frumvarp gengur auðvitað ekki jafn langt og við píratar mundum vilja ganga, við viljum ganga mun lengra og taka mun stærri skref. Þó verður að segja þessu frumvarpi til happs að það lagar eitt af vandamálunum sem koma upp í umræðunni um okkar ágætu þingsályktunartillögu, að ein helsta gagnrýnin á þá þingsályktunartillögu og þá hugmynd að stíga það stóra skref er skortur á tölfræði sem sýnir fram á þörfina til að hafa sérstakt eftirlit með kvörtunum til lögreglu, kvörtunum yfir starfsháttum og störfum lögreglu. Það er eitthvað sem frumvarpið kemur til með að laga. Hugsanlega er þetta skref í átt að næsta skrefi. Ég vona það svo sannarlega.

Mér finnst mikilvægt að halda til haga muninum á kvörtunum og kærum. Sömuleiðis því hvað er kannski athugunarverð háttsemi, eða hvað maður á að kalla það, eða einhver störf eða starfshættir sem er þess virði að kvarta undan og bregðast við með einhverjum hætti annars vegar og hins vegar refsiverðum brotum. Lögreglumenn, eins og ég fór yfir í ræðu um annað mál áðan, hafa samkvæmt ákveðnum reglum og undir ákveðnum kringumstæðum heimild til þess að beita líkamlegu valdi. Í því felst ofboðslega mikið vald. Því er ofboðslega mikilvægt að gott aðhald og mótvægi sé í þeim málaflokki. Meðan ég man, fyrst hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði „checks and balances“ á ensku þá hef ég jafnan þýtt það sem aðhald og mótvægi og legg það til sem þýðingu á því þegar menn vilja nota það ágæta og mikilvæga hugtak.

Hegðun einhvers sem hefur vald yfir öðrum getur haft mjög rík áhrif á þann sem verður fyrir valdinu án þess að um refsivert brot sé að ræða. Sem dæmi: Stjórn yfir upplýsingum getur verið stórt valdatæki. Hægt er að misbeita upplýsingum án þess að brjóta nokkur lög. Hægt er að orða hlutina á hátt sem er misvísandi eða veldur misvísandi skilningi án þess að brotin séu nein lög, meira að segja án þess að beinlínis sé logið. Hægt er að afvegaleiða með sönnum fullyrðingum. Það er alveg hægt, það fer eftir samhengi og því hvernig menn setja slíkt upp og allt það. Eitt af því sem ég heyri mikið um er það vandamál að einstaklingar eru einhvern veginn sannfærðir um eitthvað sem stenst ekki alveg af einstaka lögreglumönnum. Það er nokkuð sem er mjög erfitt að setja einhverja beina refsingu við, enda er ekki endilega þörf á því í sjálfu sér. En það þarf að koma fram kvörtun. Það þarf að vera annar aðili en lögreglan sem skoðar þá kvörtun og leggur einhvers konar mat á hana, í það minnsta hvar hún eigi heima. Sömuleiðis að til staðar sé tölfræði og gögn þannig að hægt sé að greina umfang vandans og eðli hans, og þá auðvitað hvort hann sé til staðar til að byrja með, því að eðli málsins samkvæmt eru kvartanir á hendur lögreglu oft og tíðum vegna þess að lögreglan þarf að hafa afskipti af aðilum sem telja sig ekki hafa gagn af afskiptum lögreglu.

Einnig er hætt við því að kerfi yfirvalda, þá sér í lagi lögreglu sjálfrar, bregðist við með því viðhorfi að þarna sé um einhver leiðindi að ræða, einhver sem hafði eitthvað á samviskunni og brást við með því að kenna lögreglunni um það sem var honum sjálfum að kenna. Þannig er nú bara lífið og vissulega er lögreglan ströng af og til. En svo kemur líka fyrir að lögreglumenn, verandi mennskir og breyskir eins og við öll, gera mistök oft án þess að ætla sér það, oft án þess að átta sig á því og stundum vegna þess að þeir telja sig tilneydda til þess og sjálfsagt í einhverjum einstaka tilfellum vegna þess að þeir eru bara vondir, þeir eru jú fólk. Það skiptir ekki öllu máli. Það sem skiptir máli er að til séu leiðir, formlegar leiðir til að bregðast við því. Í dag eru þær leiðir í tilfellum kvartana eiginlega ekki virkar, vil ég meina. Þegar maður les um málið kemur fram að tölfræðin um kvartanir, ekki kærur heldur kvartanir, er léleg svo ekki sé meira sagt, þar sem kvartanir eru yfirleitt meðhöndlaðar á vettvangi eins og það er orðað, mjög fróðlegt orðalag, eða þá að þær eru ekki skráðar neins staðar formlega. Þær eru aðeins til í upprifjunum einhverra einstaklinga sem vinna hjá lögreglunni.

Frumvarpið kemur til með að laga þetta, held ég, að verulegu leyti, gengur ekki jafnt langt og ég mundi vilja en það setur alla vega þessa hluti í eitthvert skýrt form sem er þá í það minnsta hægt að nota til að greina vandamálin, sjá kannski einhver munstur í því hvaða hegðun það er sem fólk kvartar mest undan, hvort þær kvartanir séu lögmætar og hverjar ekki, kannski er misræmi milli umdæma, sem mundi þá væntanlega leiða einhvern sannleika í ljós. Ef sömu kvartanirnar eru í meginatriðum í öllum umdæmum, þá lítur það kannski öðruvísi út en ef endurteknar sambærilegar kvartanir eru í einu eða tveimur umdæmum og hugsanlegt væri að rekja vandamálið sem varðar starfshætti lögreglu með auðveldum hætti án þess að þurfa endilega að hafa til þess einhverja sérstaka stofnun, því að ýmislegt er hægt að laga um leið og fólk áttar sig á því hver vandinn er. Sum vandamál eru meira að segja þannig að það þarf ekki meira en að tala um þau til að þau lagist, ég ætla ekki að segja af sjálfu sér, en með mjög lítilli fyrirhöfn þegar vandinn er orðinn ljós og skýrt hvernig skuli bregðast við honum.

Ég tók eftir því í þessu ágæta frumvarpi að frumkvæðishlutverk er tilgreint í d-lið 2. gr. Mér þykir það mikilvægt og mjög jákvætt. Stundum verða opinberir einhverjir meintir misbrestir og þá er mjög gott að eftirlitsnefnd þurfi ekki að fá formlega tilkynningu eða neitt um það til að rannsaka mál að eigin frumkvæði.

Sá sorglegi atburður gerðist nýlega að í fyrsta sinn í sögu Íslands lést einstaklingur í kjölfar lögregluaðgerða. Mjög mikilvægt er fyrir alla að slík mál séu skoðuð alveg ofan í kjölinn, ekki aðeins fyrir lögregluna sjálfa heldur aðstandendur.

Hvað varðar áhyggjur hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, sem við fórum aðeins inn á í andsvörum og hv. þingmaður kom inn á samtali við hæstv. innanríkisráðherra, um pólitíska aðkomu að þessu öllu saman, þá þykir mér sú umræða áhugaverð. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi ekki að vera í þessu frumvarpi til að það fari í gegn, en það er auðvitað eitthvað sem ég hygg líka að væri kannski gott fyrsta skref að ræða við hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hv. formann þeirrar ágætu nefndar, vegna þess að ég mundi halda að það væri nú þegar að einhverju leyti hlutverk þeirrar nefndar að sinna því eftirlitshlutverki, þ.e. ef hún tæki það upp á sína arma að gera það. Ég sé í raun og veru ekki að það þurfi nein lög til þess, mundi halda að lagaumhverfið í kringum nefndir Alþingis dugi nú þegar ef stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ákveður einfaldlega að sinna þessu hlutverki. Ég er svo sem ekkert handviss um það, en það er það sem ég mundi halda í fljótu bragði.

Hins vegar verður líka að hafa í huga að ekki er hægt að leysa öll svona vandamál með lögum núna. Frumvarpið varðar símahlustanir af hálfu hins opinbera, af hálfu framkvæmdarvaldsins, lögreglunnar. Spurning er um samskipti borgaranna við yfirvöld. Samskipti og hleranir eru hins vegar miklu víðtækara málasvið. Það varðar ekkert endilega yfirvöld. Það eru fyrirtæki sem hlera. Það eru einstaklingar úti í bæ sem hlera vegna þess að tæknin er farin að bjóða upp á það í meiri mæli. Ég er ekki viss um að hægt sé að laga með lögum það vandamál að til dæmis forustumenn verkalýðsfélaga eða þingmenn séu hleraðir, ég þori reyndar að fullyrða blákalt að þeir eru hleraðir, margir hverjir, jafnvel af vinaþjóðum okkar. Það er bara þannig. Við búum í þeim heimi akkúrat núna.

Ég held ekki að nein lög lagi þetta. Ég held að ef menn vilja hafa það þannig að það gerist aldrei aftur, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson óskaði réttilega eftir áðan, þá þýðir það miklu meira en að setja einhver lög um eftirlit með lögreglu eða eftirlit með hinu opinbera. Það þarf þá að gerast í miklu víðara samhengi með aukinni öryggisvitund þeirra sem hugsanlega verða fyrir hlerunum. Það er langtímaverkefni og mjög erfitt hafandi reynt að fræða fólk um öryggismál, þá er það þannig í þessu samfélagi eins og fleirum að flestir telja sig ekki hafa neitt að fela, sem er auðvitað bull, en í þokkabót er það ekki aðalatriðið. Hæstvirtur uppljóstrari, Edward Snowden, orðaði þetta vel, sagði að það að segja að maður þurfi ekki friðhelgi einkalífs vegna þess að menn hafi ekkert að fela sé eins og að segja að maður þurfi ekki tjáningarfrelsi vegna þess að maður hafi ekkert að segja. Það þykir mér útskýra mjög vel hversu mikilvæg þessi réttindi eru sem frumvarpinu er ætlað að verja, nefnilega friðhelgi einkalífsins.

Ég held því að þegar kemur að þeim áhyggjum sem reifaðar voru áðan af hv. þingmanni þá sé það stærra mál en þetta frumvarp. Að því sögðu þykja mér þær áhyggjur áhugaverðar, þær eru klárlega réttmætar. Ég meina, aðilar hafa verið hleraðir í fortíðinni og alveg sama hvað manni finnst um stjórnvöld núna og hæstv. ráðherra núna og hv. embættismenn núna og hv. þingmenn núna, þá er alltaf hætta á því að seinna meir verði yfirvöld ekki svo vinveitt borgararéttindum og lýðræðinu. Það gerist reglulega að til valda komast aðilar sem er einfaldlega sama um réttindi borgaranna og lýðræðið, en hlutirnir snúist fyrst og fremst um völd. Það hefur gerst í sögunni margsinnis og mun sjálfsagt gerast aftur. Þá er mikilvægt að innviðirnir séu þannig að þeir fyrirbyggi það helst og í öðru lagi að þeir geti sem best tekist á við slíkt ef það á sér stað. Auðvitað er það hlutverk okkar allra sem byggjum samfélagið að tryggja að slíkt gerist ekki.

Mér þætti mjög gaman að heyra viðhorf fleiri úr hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um þetta mál, þá sér í lagi það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson vakti máls á, þ.e. að pólitískri aðkomu að eftirlitinu. Ég velti enn fremur fyrir mér hvort ekki væri við hæfi að sú nefnd eða kannski undirnefnd þeirrar ágætu nefndar mundi skoða reglulega þó ekki væri nema tölfræðina um þessi mál til að reyna að átta sig á því hvort allt væri í lagi. Þá langar mig líka að nefna að ég hygg að upplýsingar um hleranir af yfirvöldum séu heldur persónulegs eðlis. Þar sem ég vil almennt að fundir fastanefnda Alþingis séu að jafnaði opnir þá er til leið til að eiga við viðkvæm gögn í nefndum með því að búa til undirnefnd, við gerum það í hv. allsherjar- og menntamálanefnd þegar kemur að veitingu ríkisborgararéttar tvisvar á ári. Þar eru undantekningarlaust mjög viðkvæm gögn á ferð og mjög mikilvægt að trúnaður sé haldinn og farið sé varlega með þau gögn. Og þetta hljómar eins og um gögn sem þyrfti að fara með af mjög mikilli virðingu og trúnaði þingmanna, og það er svona eitt sem þyrfti líka að halda til haga, það varðar friðhelgina að hafa verið hleraður af yfirvöldum. Það hlýtur alltaf að vera einhver ástæða fyrir því hvort sem hún er síðan réttmæt eða óréttmæt, þá er alltaf einhver ástæða fyrir því. Menn eru ekki að gera það bara að gamni sínu, held ég.

Eins og fyrr greinir viljum við í Pírötum ganga miklu lengra en þetta. Ég hygg þó að frumvarpið geti haft mjög jákvæð — ég fullyrði reyndar að frumvarpið, verði það að lögum sem ég geri ráð fyrir að verði, muni hafa mjög jákvæð áhrif, muni búa til gögn sem verða nytsamleg til framtíðar, en sömuleiðis veita eitthvert aðhald. Ég held að mikið svigrúm sé til þess að þetta takist vel — eða illa. Þetta er eitthvað sem við eigum eftir að þurfa að endurskoða eftir einhvern tíma, ekki endilega allt of langan, til að sjá hvernig hafi heppnast. Þetta er jú auðvitað nýtt og sömuleiðis þess eðlis að þarna er fyrst og fremst um einhvers konar flokkun að ræða og ábendingar frekar en allt það havarí sem við píratar vildum helst halda utan málaflokksins.

Það er svo sem ekki fleira að segja um málið að svo stöddu. Ég hlakka mikið til að ræða málið í nefnd og fá umsagnir aðila utan úr bæ um það og hlakka ekki síður til 2. umr.