145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

lögreglulög.

658. mál
[18:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir það að það skiptir mestu máli að búið sé að viðra þessi sjónarmið í þessari umræðu. Ég held sömuleiðis að lausnin, alla vega í því samhengi sem hv. þingmaður nefnir, sé einföld. Ég hygg að hún krefjist ekki lagabreytingar. Ég held að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gæti gert þetta ef henni sýndist svo. Kannski er gott að hafa lagastoð þannig að tryggt sé að það starf héldi áfram ef ske kynni að (Gripið fram í.)stjórnvöld kæmust til valda sem væru óvinveitt friðhelgi einkalífs og lýðræði.

Þó að við finnum í fortíðinni dæmi um símahleranir yfirvalda í garð þingmanna og forustumanna verkalýðsfélaga og slíkra stofnana, þá held ég að ef sambærileg dæmi kæmu upp í dag væru þau ekki framkvæmd í gegnum lögregluna. Segjum sem svo að í samfélaginu væri gríðarlega stór hagsmunaaðili — ég nenni ekki að taka dæmi vegna þess að þá fara menn að rífast um það — sem hafi áhuga á því að hlera forustumenn ASÍ eða því um líkt. Þá held ég ekki að viðkomandi mundi leita til einhverra innan lögreglunnar til að ná því markmiði. Ég held miklu frekar að hann mundi leita í skipulagða glæpastarfsemi eða til hópa á netinu sem sérhæfa sig í því að hakka fólk gegn gjaldi. Ég held að þar sé mesta ógnin, þegar kemur að hlerunum á embættismönnum, forustumönnum verkalýðsfélaga, þingmönnum og stjórnmálamönnum í stjórnarandstöðu og stjórn.

Það er vegna þess að núna er tæknin þannig að maður þarf ekki að vera lögreglumaður til þess að hlera. Það eru glæpagengi sem geta gert þetta og þau taka einfaldlega gjald fyrir að gera það. Þannig að ég hef miklu meiri áhyggjur af því. Lausnin á því verður ekki gegnum lög nema í því samhengi að styrkja öryggisvitund og getu yfirvalda og almennra borgara og þingmanna til að standa vel að sínum eigin öryggismálum.